„Ætla ekki að segja að ég hafi verið eftirsóttur maður“

„Ég var ótrúlega fastur á því að ég ætlaði mér alltaf að vera Fylkismaður og markmið númer eitt hjá mér var að spila með Fylki í efstu deild,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ásgeir Börkur Ásgeirsson í Dagmálum.

Ásgeir Börkur, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna eftir síðasta keppnistímabil en hann er hvað þekktastur fyrir tíma sinn með uppeldisfélagi sínu Fylki og var á meðal litríkustu karakteranna í íslenska boltanum lengi vel.

Háði mér pottþétt

Ásgeir Börkur lék einnig með Selfossi á láni frá Fylki á ferlinum, og þá gekk hann til liðs við HK árið 2019 og lék með liðinu í tvö tímabil áður en hann snéri aftur í Árbæinn. Hann lauk svo ferlinum með ÍR í Breiðholti síðasta sumar.

„Það háði mér pottþétt hversu mikill Fylkismaður ég er,“ sagði Ásgeir Börkur.

„Ég ætla ekki að segja að ég hafi verið eftirsóttur maður en það komu upp spennandi tækifæri á mínum ferli, og þegar ég hugsa til baka, þá hefði kannski verið gott fyrir mig að breyta til,“ sagði Ásgeir Börkur meðal annars.

Viðtalið við Ásgeir Börk í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert