Ég fór bara að grenja

Róbert Aron með bikarinn í leikslok.
Róbert Aron með bikarinn í leikslok. mbl.is/Jóhann Ingi

„Ég fór bara að grenja,“ sagði Róbert Aron Hostert leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hann varð Evrópubikarmeistari með Val eftir sigur á Olympiacos í vítakeppni í Aþenu í kvöld.

„Ég er stoltur af liðinu. Það var þvílíkt mótlæti, mér fannst bara allt á móti liðinu í kvöld. Dómgæslan var ekki góð og mér fannst eins og það væri að brotna undan þessu en við sýndum styrk.

Að koma til baka, fara í vító og klára þetta eins og alvörutöffarar. Sástu þessa gæja og vítin þeirra? Maður býr til sína eigin heppni og Björgvin lokaði á hann og hann skaut í slána. Þetta er það fallega við íþróttir, þetta getur verið stöngin inn og stöngin út," sagði Róbert og hélt áfram: 

„Olympiacos eru geðveikir og með geggjaða leikmenn. Þetta var geðveikur handboltaleikur. Ég er að átta mig á þessu núna og ég er bara grenjandi hérna. Maður er búinn að vera lengi í þessu og maður hefur aldrei tekið þetta.

Þetta er búið að vera langt tímabil með endalaust af ferðalögum. Við erum að vinna heima, erum pípapar, lögfræðingar og með fjölskyldur og við höfum þurft að púsla öllu saman.

Við höfum þurft að safna fyrir þessu og sjálfboðaliðar og allir sem hafa komið í kringum þetta eiga þetta svo skilið. Þetta er fyrir þau,“ bætti hann við. 

En hvernig var að taka við Evrópubikarmeistaratitli og fagna með Völsurum í stúkunni? 

„Það er svo erfitt að lýsa þessu. Allir titlar eru mismunandi en þessi er sá sterkasti og sá sætasti sem við höfum unnið. Það hefur ekkert lið á Íslandi gert þetta áður. Að taka á móti þessu hérna, eftir allt þetta mótlæti er geggjað. Fólkið okkar var uppi í rjáfri og mátti ekki koma nálægt okkur. Það er tilfinninga rússíbani núna,“ sagði Róbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert