Það sem gerir mig svo klökkan

Björgvin Páll Gústavsson Evrópubikarmeistari.
Björgvin Páll Gústavsson Evrópubikarmeistari. mbl.is/Jóhann Ingi

Það var augljóst að Björgvin Páll Gústavsson var búinn að gráta aðeins þegar mbl.is ræddi við hann eftir að hann varð Evrópubikarmeistari með Val eftir sigur á Olympiacos í vítakeppni í Aþenu í kvöld.

„Þetta gaf sig í restina hjá mér. Ég ætlaði að halda andliti þangað til ég færi inn í klefa en svo var þetta svo langur fögnuður að ég gat ekki meira,“ sagði Björgvin aðeins rauður í augunum.

„Ég er svo þakklátur fyrir að vera hluti af þessari heild og þessari fjölskyldu. Það er það sem gerir mig svona klökkan. Að fá að spila með öllum þessum gæjum. Þeir sýndu hvað þeir eru miklir stríðsmenn í dag. Við erum ekki bara hraðlestin heldur líka stríðsmenn.

Björgvin Páll kampakátur í leikslok.
Björgvin Páll kampakátur í leikslok. mbl.is/Jóhann Ingi

Fólk gerir sér ekki grein fyrir þrýstingnum sem var í höllinni. Ef þú stendur svona af þér og átt ekki skilið að vera Evrópumeistari áttu það aldrei skilið,“ sagði Björgvin.

Valur skoraði úr öllum fimm vítaköstunum sínum á meðan Savvas Savvas klikkaði á fimmta víti Olympiacos þegar hann skaut í slána.

„Ég var búinn að ákveða að taka x-ið á hann. Ég var búinn að vera í vandræðum með hann allan leikinn heima í vítunum. Hann var búinn að gera mér lífið erfitt. Þessi leikur snerist hins vegar ekki um þetta víti eða einhverja frammistöðu hjá mér heldur Val.

Þetta snerist um Evróputitil, sama hvernig hann fæddist. Þetta var fallegt í lokin. Auðvitað er skrítið að tapa leiknum svona og enda þetta vítakeppni en þetta var eins dramatískt og þetta gat orðið. Gæsahúðin og hamingjan er þeim mun meiri.

Við erum svo stórir að brotna ekki fyrir framan 7-8 þúsund manns í Grikklandi. Við vorum stórir og við vorum Valur í dag,“ sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert