Sigurmark Símonar á síðustu stundu

Einar Bragi Aðalsteinsson skýtur að marki Aftureldingar.
Einar Bragi Aðalsteinsson skýtur að marki Aftureldingar. mbl.is/Óttar Geirsson

FH og Afturelding áttust við í þriðju viðureign úrslitaeinvígis Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og lauk leiknum með hádramatískum sigri FH 27:26 eftir sigurmark á lokasekúndu leiksins.

FH-ingar eru þar með komnir í 2:1 og geta orðið Íslandsmeistarar með sigri í fjórða leiknum í Mosfellsbæ á miðvikudag.

Fyrsta mark leiksins kom eftir tæpar þrjár mínutur þegar Jóhannes Berg Andrason kom FH yfir í leiknum. Mosfellingar jöfnuðu leikinn í stöðunni 1:1 og komust yfir 2:1. Eftir það voru það heimamenn úr FH sem eltu restina af hálfleiknum. Afturelding komst mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa lent einu sinni í því að vera tveimur mönnum færri og svo síðar lentu þeir aftur í því og voru þá þremur mönnum færri um stund.

Þessa kafla í leiknum notfærði FH sér mjög illa og náðu þeir aldrei að koma út úr þessum köflum í plús. Mosfellingar voru klókir að bæði skora og drepa tímann.

Þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 10:9 fyrir Aftureldingu. Þann mun juku gestirnir í 14:11 og fóru síðan í hálfleikinn í stöðunni 15:12.

Markahæstur í liði FH í fyrri hálfleik var Jóhannes Berg Andrason með 3 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 5 skot fyrir FH í fyrri hálfleik.

Í liði Aftureldingar var Þorsteinn Leó Gunnarsson með 6 mörk og Jovan Kukobat varði 10 skot, þar af 1 vítaskot í fyrri hálfleik.

Heimamenn í FH mættu dýrvitlausir í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu 4 mörkin og komust yfir í stöðunni 16:15. Eftir það var leikurinn í járnum sem einkenndist af gríðarlegri spennu og hörku. Liðin skiptust á að skora, jafna og komast yfir. Afturelding náði aftur forskotinu í 17:16 og eftir það var það hlutverk FH að jafna og tókst þeim það ítrekað. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 21:21.

Blær Hinriksson kom Aftureldingu í 22:21 þegar 9 mínútur voru eftir af leiknum og FH með boltann. Þá mætti Aron Pálmarsson með eina af sleggjunum sínum og jafnaði fyrir FH í 22:22. Á þessum tímapunkti voru 8 mínútur eftir af leiknum.

Þegar rúmlega 7 mínútur voru eftir kom Birkir Benediktsson Aftureldingu enn og aftur yfir og staðan 23:22 fyrir gestina. Næstu sókn á eftir klikkuðu FH-ingar á að jafna og Afturelding gat náð tveggja marka forskoti. Það gerði línumaðurinn Jakob Aronsson og staðan orðinn 24:22 fyrir Aftureldingu og rétt rúmlega 5 mínútur eftir af leiknum.

Eftir þetta tók Sigursteinn Arndal leikhlé enda FH tveimur mörkum undir og rétt rúmar 5 mínútur eftir. FH fékk víti í næstu sókn og það tók Aron Pálmarsson. Hann skoraði af öryggi og staðan 24:23 fyrir Aftureldingu. FH vann síðan boltann í næstu vörn og gátu jafnað leikinn. Það gerði Aron Pálmarsson og staðan 24:24.

Stefán Magni Hjartarson kom Aftureldingu enn og aftur yfir í stöðunni 25:24 áður en Aron Pálmarsson jafnaði enn og aftur fyrir FH. Staðan 25:25 og 3 mínútur eftir leiknum.

Afturelding tapaði boltanum i næstu sókn sinni en það kom ekki að sök fyrir þá því FH gerði slíkt hið sama í sinni sókn og fengu gestirnir tækifæri til að ná eins marks forskoti enn og aftur í leiknum þegar 2 mínútur voru eftir.

Blær Hinriksson fiskaði víti fyrir Aftureldingu þegar 1 mínútua og 30 sekúndur voru eftir af leiknum. Vítið varði Daníel Freyr Andrésson fyrir FH og fengu heimamenn tækifæri til að ná forskotinu.

Sigursteinn Arndal tók leikhlé þegar 49 sekúndur voru eftir til að skipuleggja sóknina. Úr téðri sókn skoraði Jóhannes Berg Andrason og FH með forskot í stöðunni 26:25 og 20 sekúndur eftir.

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar tók leikhlé og notaði það vel því Afturelding skoraði og jafnaði leikinn í 26:26 með marki frá Jakobi Aronssyni.

Leikmenn FH brunuðu upp í sókn og fundu Símon Michael Guðjónsson sem skoraði sigurmark FH á lokasekúndunni og vann FH hádramatískan sigur 27:26.

Markahæstur í liði FH var Jóhannes Berg Andrason með 6 mörk og Aron Pálmarsson með 5 mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 9 skot í marki FH, þar af eitt vítaskot.

Í lið Aftureldingar voru þeir Blær Hinriksson og Þorsteinn Leó Gunnarsson með 6 mörk hvor. Jovan Kukobat varði 15 skot í marki Aftureldingar, þar af tvö vítaskot.

FH 27:26 Afturelding opna loka
60. mín. Jóhannes Berg Andrason (FH) skoraði mark FH kemst yfir með glæsilegu marki!!!!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert