Engin skömm í því að fá hjálp

Agnar Smári hefur gengið í gegnum ýmislegt.
Agnar Smári hefur gengið í gegnum ýmislegt. mbl.is/Óttar

Handknattleiksmaðurinn Agnar Smári Jónsson hefur átt farsælan feril með Val og ÍBV og unnið 13 stóra titla á Hlíðarenda og í Vestmannaeyjum. Hann hefur hins vegar glímt við andlega erfiðleika á leiðinni og þar á meðal búlemíu (lotugræðgi) og átröskun.

„Ég glímt við mitt andlega, m.a. búlemíu og átröskun. Svo fékk ég brjósklos og hef ekki náð mínu allra besta fram síðan þá. Mér finnst ég samt nálægt því í dag,“ sagði Agnar við mbl.is í Grikklandi, þar sem hann varð Evrópubikarmeistari með Val.

„Ég er mjög stoltur af mínum ferli, þótt ég hefði verið til í að gera helling öðruvísi. Á sama tíma er fullt sem ég myndi ekki gera neitt öðruvísi. Ég get sagt það sjálfur að ég er búinn að ná fáránlega góðum árangri. Ég hef unnið 13 stóra titla á meðan þetta hefur verið upp og niður.

Það er fegurðin í þessu. Þetta er liðsíþrótt og það er alltaf einhver sem grípur mann. Ef maður er í einstaklingsíþrótt þá væri maður kannski á allt öðrum stað. Maður er alltaf með fólk í kringum sig sem er tilbúið að hjálpa manni, styðja mann þegar gengur bæði vel og illa, það er fegurð í því,“ bætti Agnar við.

Hann kom svo með mikilvæg skilaboð að lokum:

„Andlega hliðin er fáránlega mikilvæg. Ef þú ert í einhverju brasi eða að glíma við eitthvað, fáðu þér hjálp. Það er engin skömm í því. Ég hef fengið hjálp frá fullt af stöðum. Það er alltaf hægt að ræða hlutina og það er ekkert mál of stórt eða of lítið til að fá hjálp við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert