Þetta er með sárari töpum

Gunnar Magnússon ræðir við sína menn.
Gunnar Magnússon ræðir við sína menn. mbl.is/Eyþór Árnason

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar sagði eftir ósigurinn gegn FH í Kaplakrika í kvöld, 27:26, í þriðja úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta að tapið hefði verið ansi sárt.

„Já þetta er með sárari töpum, sérstaklega hvernig þetta gerist. Ótrúlega svekkjandi að fá ekkert út úr þessu. En planið er ekkert breytt og það er bara næsti leikur. Leikur 4 er á okkar heimavelli og það er bara áfram gakk. Nú förum við yfir þetta og mætum klárir í næsta leik.

Við spiluðum þennan leik heilt yfir vel og ég er bara mjög stoltur af liðinu mínu og ánægður með þá. Ég vill sérstaklega hrósa Blæ fyrir að fara á vítapunktinn þarna undir lok leiksins og stíga upp fyrir liðið. Hann er mikill leiðtogi og stór karakter. En þetta gat lent báðu megin og það er nánast ekki neitt sem skilur þessi lið að í kvöld."

Þið leiðið nánast allan leikinn. Hvað vantaði upp á í ykkar leik?

„Fystu 8 mínúturnar í síðari hálfleik svíða mikið núna. Ég þarf að skoða það. Við missum ákveðið frumkvæði þar þó við höfum komist yfir aftur en þar er kafli sem var okkur mjög dýrkeyptur. Síðan er hægt að týna allskonar til en á endanum eru þetta bara tommur sem skilur að og þetta var bara stöngin út í kvöld."

Afturelding er komin með bakið upp við vegg og þarf að vinna á miðvikudag. Hvað þarf til?

„Við þurfum bara að vera fljótir að jafna okkur á þessu og ég hef verið í þessari stöðu oft áður og komið til baka oftar en einu sinni í svona einvígi og ég hef fulla trú á því að við getum það. Við þurfum bara að spila okkar leik og ég veit við getum unnið FH, við höfum sýnt það. Aðalvinnan liggur á mér að láta strákana jafna sig á þessu tapi og íta þessum leik frá okkur.

Ég veit líka að fólkið okkar í Mosfellsbæ mun mæta og styðja við okkur og þetta eru bara tommur hér og þar sem þurfa að detta okkar megin og ég er ofboðslega ánægður með spilamennskuna hjá strákunum í þessu einvígi og við þurfum bara okkar leik á miðvikudag og þá hef ég fulla trú á góðri niðurstöðu fyrir okkur," sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert