Ein vika í kosningar: Línurnar teknar að skýrast

Samsett mynd/mbl.is/Brynjólfur Löve

Línurnar eru farnar að skýrast í baráttunni um Bessastaði þegar aðeins vika er til kosninga. Þó geta enn orðið töluverðar breytingar á fylgi frambjóðenda í komandi viku. Ekkert bendir til þess að fólk muni kjósa taktískt gegn Katrínu Jakobsdóttur.

Þetta segir Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is.

Er hægt að segja til um það hvaða frambjóðendur eru líklegastir til þess að sigra í kosningunum?

„Ég myndi halda að miðað við kannanir að það er Katrín Jakobsdóttir augljóslega, og Halla Tómasdóttir gæti verið að bæta við sig. Ef maður horfir á Baldur [Þórhallsson] þá hefur hans fylgi staðið nokkurn veginn í stað.

Þannig að miðað við kannanir undanfarið – auðvitað á hann séns – þá myndi ég segja Katrín og Halla Tómasdóttir, bara út af því að hennar fylgi er búið að vera svo mikið upp á við. Og Halla Hrund að tapa [fylgi). Ætli það sé ekki öruggast að segja að það eru þessir fjórir sem geta mögulega tekið vinninginn eða verið nálægt því,“ segir Eva.

Má búast við sviptingum á kjördag

Hún ítrekar að baráttan sé ekki búin og að erfitt sé að segja til um það hver sigri.

Miklar sviptingar hafa orðið áður á kjördegi en sem dæmi má nefna að samkvæmt könnun Gallup degi fyrir kosningar árið 2016 þá mældist Guðni Th. Jóhannesson með 44,6% fylgi en fékk 39,1% fylgi í kosningunum degi seinna. Halla Tómasdóttir mældist með 18,6% fylgi degi fyrir kosningar en fékk upp úr kjörkössum 27,9%.

Má búast við álíka mun á niðurstöðunum sjálfum og könnunum í ár?

„Það er rosalega erfitt að spá fyrir um það en mitt svar er já, við megum alveg búast við því,“ segir hún.

Hún útskýrir að það sé ekki vegna þess að kannanir séu rangar heldur bara vegna þess að fylgið sé á mun meiri hreyfingu heldur en í Alþingiskosningum, þar fylgið er fastar í skorðum.

„Fólk er að máta sig við hinn og þennan frambjóðandann og tekur svo endanlega ákvörðun á kjördag. Þessar kannanir sem voru í aðdraganda kosninga fyrir átta árum síðan voru ekki rangar, fólk var bara að skipta um skoðun alveg þangað til að það mætti í kjörklefann,“ segir hún.

Eva Heiða Önnudóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
Eva Heiða Önnudóttir, prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Halla kannski enn að auka fylgið eins og síðast

Það hefur oft verið talað um það að Halla Tómasdóttir hafi toppað á vitlausum tíma árið 2016. Er það öðruvísi núna?

„Það sér ekki enn fyrir endann á því hvort að hún sé búin að toppa. Ég man að nokkrum dögum fyrir kosningar fyrir átta árum síðan, þegar hún var að hækka svona mikið í könnunum síðustu dagana, að ég og kollegar mínir hugsuðum: „Heyrðu hún gæti nú bætt töluvert við sig“. Það var því að hún virtist vera á svo miklu flugi, hún var að hækka í könnun eftir könnun í síðustu vikunni. Hvernig tengist þetta kosningunum núna?“ spyr hún og svarar því sjálf:

„Þetta tengist að því leyti að nú hugsa ég að kannski er hún ekkert búin að toppa, kannski er hún enn að hækka eins og síðast.“

Ekkert bendir til taktískra kosninga

Umræða hefur verið um það hvort að fólk muni kjósa taktískt í þessum kosningum. Það er að segja að fólk muni ekki kjósa sinn uppáhalds frambjóðanda heldur kjósa ákveðinn frambjóðanda til að koma í veg fyrir annan frambjóðanda, eins og til dæmis Katrínu. Eva segir ekkert benda til þess að svo verði.

„Mér finnst ekkert benda til þess að það verði mikil strategísk kosning. Allavega ef hún verður þá eru ekki miklar líkur á því að það muni hafa áhrif á úrslitin og ástæðan er sú að þau eru svo mörg sem eru í öðru sæti á eftir Katrínu. Þannig það er ekki einn augljós kostur að kjósa ef fólk vill kjósa gegn Katrínu,“ segir Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert