Hvenær birtast fyrstu tölur?

Íslendingar munu velja sér sinn næsta forseta, laugardaginn 1. júní.
Íslendingar munu velja sér sinn næsta forseta, laugardaginn 1. júní. Samsett mynd

Aðeins átta dagar eru til forsetakosninga og margir eru byrjaðir að velta því fyrir sér hvenær fyrstu tölur koma laugardagskvöldið 1. júní.

mbl.is hefur rætt við formenn allra yfirkjörstjórna til að fá það á hreint hvenær tölur byrja að berast, en eðli málsins samkvæmt eru svörin háð ýmsum fyrirvörum. 

Miðað við kannanir þá er mjótt á munum og því ekki vitað fyrir víst hver muni bera sigur úr býtum eftir fyrstu tölur. Talning atkvæða er ekki ólík því sem venjast má í Alþingiskosningunum en talning atkvæða og tölur um niðurstöður eru birtar eftir kjördæmunum sex.

Miðað við svör formanna þá má gera ráð fyrir því að fyrstu tölur muni berast úr Suðurkjördæmi á milli klukkan 22.15-22.30. Lokatölur munu líklega ekki birtast fyrr en um klukkan 7 á sunnudagsmorgni.

Reykjavíkurkjördæmi norður

Heimir Örn Herbertsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norðurs, segir í samtali við mbl.is að gera megi ráð fyrir því að fyrstu tölur verði birtar um miðnætti, en talning atkvæða hefst klukkan 22.

Síðustu atkvæðin sem verða talin eru utankjörfundaratkvæðin og gerir hann ráð fyrir því að þeirri talningu ljúki klukkan 04.30 og að lokatölur úr Reykjavíkurkjördæmi norður verði birtar í kjölfarið.

Reykjavíkurkjördæmi suður

Búist er við að tölur úr Reykjavíkurkjördæmi suður birtist á svipuðum tíma og í Reykjavíkurkjördæmi norður.

„Maður veit auðvitað aldrei hvað er að fara gerast á kjördag, það getur verið ýmislegt, en við stefnum að því að vera með fyrstu tölur um miðnætti,“ segir Leifur Valentín Gunnarsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suðurs, í samtali við mbl.is.

Hann gerir ráð fyrir því að lokatölur verði birtar á milli klukkan 4.00-4.30. Atkvæði frá báðum Reykjavíkurkjördæmum verða talin í Laugardalshöll.

Suðvesturkjördæmi

Gestur Svavarsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðvesturkjörsdæmis, segir í samtali við mbl.is að fyrstu tölur ætti að birtast á milli klukkan 23.00-23.30

Hann segir erfitt að segja til um það hvenær lokatölur verði birtar en hann segir að þær komi líklega ekki fyrr en undir morgun. Atkvæði verða talin í Kaplakrika. 

Suðurkjördæmi

Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, segir í samtali við mbl.is að hann geri ráð fyrir því að fyrstu tölur birtist vonandi á milli klukkan 22.15-22.30. Því má vænta þess að fyrstu tölur í kosningunum komi úr Suðurkjördæmi.

Hann vonast til þess að lokatölur komi á milli klukkan 05-06 en segir marga óvissuþætti vera upp um það. „Það fer í fyrsta lagi eftir því hvernig verður sjófært frá Vestmannaeyjum til Landeyjarhafnar, í öðru lagi hvernig gengur að loka kjörfundi og ganga frá á Höfn í Hornafirði – þá á eftir að keyra 400 kílómetra,“ segir hann og bætir við að svo sé alltaf smá óvissa með hversu mörg utankjörfundaratkvæði verða.

Atkvæði verða talin í Fjölbrautarskóla Suðurlands.

Norðausturkjördæmi

Atkvæði verða talin í Háskólanum á Akureyri og gera má ráð fyrir því að fyrstu tölur verði birtar á milli klukkan 22.30-23.00. Þetta segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, í samtali við mbl.is.

Hann segir að talning atkvæða ljúki ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 6 á sunnudagsmorgni og lokatölur verða birtar í kjölfarið.

Norðvesturkjördæmi

Ari Karlsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, áætlar að fyrstu tölur úr Norðvesturkjördæmi birtist á milli klukkan 23.30-00.00.

Í síðustu Alþingiskosningum voru lokatölur birtar í Norðvesturkjördæmi um klukkan 7 og telur hann ekki ólíklegt að svipuð staða verði í forsetakosningunum.

Atkvæði verða talin Hjálmakletti í Borgarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert