„Geggjuð tilfinning að koma inn á“

Sá elsti, Daníel Laxdal og sá yngsti, Alexander Máni Guðjónsson, …
Sá elsti, Daníel Laxdal og sá yngsti, Alexander Máni Guðjónsson, komu inn á sem varamenn í dag. Ljósmynd/Silfurskeiðin

„Þetta er geggjaður dagur og ég er mjög þakklátur að fá tækifæri hjá Jökli að spila í efstu deild. Vonandi koma fleiri leikir.“

Þetta sagði Alexander Máni Guðjónsson, ungur leikmaður Stjörnunnar og nú þriðji yngsti leikmaðurinn sem spilar í efstu deild karla í fótbolta hér á landi á eftir Eyþóri Erni Ómarssyni úr ÍBV og Gils Gíslasyni úr FH en sá síðast nefndi á metið er hann lék 14 ára og 318 daga gamall árið 2022.

Eyþór var 14 ára og 330 daga gamall þegar hann lék árið 2018 en Alexander Máni er 14 ára og 343 daga gamall í dag en hann kom inn á sem varamaður á 86. mínútu leiksins.

Sonur goðsagnar

Alexander er sonur goðsagnarinnar Guðjóns Baldvinssonar sem skoraði 63 mörk í 156 leikjum í efstu deild á Íslandi fyrir KR og Stjörnuna og er þriðji markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild frá upphafi. Hann er sóknarmaður eins og pabbi sinn.

Hinn ungi Alexander segir í samtali við mbl.is að það hafi verið þægilegt að koma inn á í stöðunni 5:0 og eiga tiltölulega pressulausa innkomu.

„Við vorum eiginlega búnir að vinna leikinn en það var geggjuð tilfinnig að koma inn á hjá uppeldisfélaginu.“

Geggjað að heyra í Silfurskeiðinni

Hann segir það hafa verið geggjaða tilfinningu að heyra í Silfurskeiðinni og brosir út að eyrum. Það er augljóst að drengurinn ungi er himinlifandi með þennan merka áfanga.

Fótboltaáhugamenn eiga vaflaust eftir að sjá meira til þessa öfluga leikmanns sem leikið hefur fyrir U15 ára landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert