Hefðu getað verið betri

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar segir að leikur liðsins við KA í dag hafi ekki verið jafn auðveldur og hann leit út fyrir að vera en Stjarnan vann stórsigur, 5:0, á Stjörnuvelli í Garðabæ.

Kom á óvart en skiljanlegt

Segir hann sigurinn hafa verið sterkan og nefndi sérstaklega sterka frammistöðu varnarlega. Hann segir að lið sitt hafi átt von á því að Rodrigo Gomes Mateo hefði verið færður niður í vörn KA af miðjunni en KA var með tvo bakverði í þriggja manna hafsentalínu. Segir hann þó skiljanlegt að gestirnir hefðu ekki viljað tefla fram svifaseinni varnarlínu.

Jökull hrósaði kollega sínum Hallgrími Jónassyni í samtali við mbl.is.

„Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig hann prófaði liðið sitt í dag. Mér fannst það skemmtilegt hjá honum og vel gert.“

Ánægður með gengi liðsins

Þá segir Jökull að gengi Stjörnunnar hafi verið upp á við undanfarið og segist hann hafa viljað meira út úr síðasta leik gegn Breiðabliki.

Segist hann ánægður með gengi liðsins og ferðina sem liðið er á og segir aðspurður markmiðið einfaldlega vera að verða betri. Segir hann að lið sitt hefði getað verið betra í dag. „Við förum bara og finnum leiðirnar að því,“ segir Jökull að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert