Slakt KA-lið niðurlægt í Garðabæ

Emil Atlason og Örvar Eggertsson fagna marki.
Emil Atlason og Örvar Eggertsson fagna marki. mbl.is/Óttar

Stjörnumenn völtuðu yfir KA á Stjörnuvelli í Garðabæ í dag, 5:0. Með sigrinum lyftir Stjarnan sér upp í 4. sæti með 13 stig og hefur markatöluna á nágranna sína í FH. Liðið er aðeins tveimur stigum frá Val sem gerði jafntefli við FH í gær.

KA er í erfiðri stöðu í fallsæti, enn með 5 stig, fjórum stigum ofar en Fylkir sem mætir HK á morgun.

Algjörir yfirburðir

Stjörnumenn hófu leikinn af krafti og héldu boltanum að mestu inni á vallarhelmingi gestanna á upphafsmínútunum. Þeir komu sér nokkrum sinnum inn fyrir varnarlínu KA áður en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós en Steinþór sá við þeim.

Á 3. mínútu lét Daníel Hafsteinsson í minni pokann eftir klafs fyrir utan vítateig KA. Jóhann Árni lagði boltann inn fyrir á Örvar Eggertsson vinstra megin í teignum og Örvar þakkaði fyrir sig með því að klára færið af yfirvegun í fjærhornið undir Steinþór Má í marki KA.

Yfirburðir Stjörnunnar voru áfram algjörir og annað mark heimamanna kom á 11. mínútu. Það lá í raun í loftinu en það stóð ekki steinn yfir steini í vörn KA-manna. Stjörnumenn höfðu spilað sig í gegn trekk í trekk og það var greinilegt að norðanmenn söknuðu Ívars Arnar úr hjarta varnarinnar en Ívar er í leikbanni í dag. Í leikmannahópi KA eru í raun aðeins tveir hreinræktaðir miðverðir og gestirnir fundu sannarlega fyrir því í dag.

KA-menn komust betur inn í leikinn í kjölfarið án þess að skapa sér afgerandi marktækifæri. Það er augljóst að það vantar sjálfstraust í liðið eftir mjög erfiða byrjun í Bestu deildinni.

KA-menn með allt niður um sig

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þann fyrri af miklum krafti og rétt eins og þá var einkar auðvelt fyrir þá að spila sig í gegnum hripleka vörn KA. Strax á 48. mínútu átti Örvar Eggertsson góða rispu á vinstri vængnum, lagði hann út á Emil sem skoraði með góðu skoti ofarlega í fjærhornið utarlega úr teignum. Allt allt of auðvelt fyrir Stjörnuna og KA-menn með allt niður um sig.

Hröð sókn Stjörnumanna á 74. mínútu endaði með því að Óli Valur lagði boltann fyrir markið og eftir smá klafs kom Helgi Fróði boltanum yfir línuna, 4:0

Þremur mínútum síðar var röðin komin að Róberti Frosta en allt opnaðist fyrir hann hægra megin í teignum. Hann hélt ró sinni og lagði boltann undir Steinþór. Niðurlæging gestanna varð algjör.

Sá þriðji yngsti í sögunni

Undir lok leiks kom hinn 14 ára gamli Alexander Máni Guðjónsson Baldvinssonar, goðsagnar í Garðabæ, inn á. Stór stund fyrir ungan dreng.

Þetta var aldrei spurning í Garðabænum í dag. Arfaslakir KA-menn voru niðurlægðir og sigur heimamanna var síst of stór.

Sveinn Margeir, Hallgrímur og Daníel voru líflegastir KA-manna framan af og Kári Gautason kom sterkur inn í seinni hálfleik í annars mjög slöku liði.

Emil Atlason, Óli Valur og Róbert Frosti voru öflugir í liði Stjörnunnar og þá átti Örvar Eggertsson góða spretti og skoraði gott mark. Guðmundur Kristjánsson var einnig fastur fyrir og öurggur í sinum aðgerðum og Jóhann Árni öflugur á miðjunni.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Stjarnan 5:0 KA opna loka
90. mín. Leik lokið Sanngjarn og síst of stór sigur Stjörnunnar á arfaslöku KA-liði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert