Fullt af strákum sem brenna fyrir félagið

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er ekki gott að fá skell í þessari stöðu en þetta er staðan sem við erum í,“ segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, í kjölfar stórs ósigurs liðsins gegn Stjörnunni í Garðabæ í dag, 5:0.

Segir hann að KA-liðið sé reynslumikið og að í hópnum séu fullt af strákum sem brenna fyrir félagið. Segist hann vilja að sínir menn sýni það í vikunni á æfingum og í næsta leik.

Gáfu sér ekki tækifæri til að spila sinn leik

Hvað leikinn sjálfan varðar segir Hallgrímur að lið sitt hafi byrjað virkilega slakt, ekki náð að setja Stjörnuna undir pressu og fengið á sig tvö mörk snemma leiks. Í kjölfarið segir hann að liðið hafi aðeins náð vopnum sínum og farið inn í hálfleik með þá tilfinningu að frammistaðan væri að skána og ef liðið myndi byrja seinni hálfleikinn vel væri því allir vegir færir. 

„Ég held að það séu ekki liðnar nema tvær mínútur þegar við fáum mark á okkur og þá verðum við svolítið slegnir og það verður að segjast alveg eins og er að við áttum slakan leik en Stjarnan góðan og þeir unnu stórt og sanngjarnt.“

Hann segist svekktur yfir því að lið sitt hafi ekki mætt meira tilbúið og ákveðið til leiks. „Nú lítum við í eigin barm. Svona frammistaða er ekki góð og við þurfum að gera betur þegar Skaginn mætir norður í næsta leik.“

Hallgrímur segir að lið sitt hafi virst óöruggt með það hvernig setja ætti Stjörnuna undir pressu. Segir liðið hafa hopað og ekki gefið sér tækifæri til að spila sinn leik.

Ekki nógu góðir

Segist hann þó ekki vilja gera of mikið úr þessum leik. KA hafi tapað leiknum og ekki verið nógu góðir en Stjarnan aftur verið góðir. Svoleiðis sé það stundum í íþróttum. 

Þjálfarinn segir að sóknarmaðurinn Viðar Örn Kjartansson sé alltaf að líta betur og betur út en að hann sé enn að vinna í að koma sér í gott fótboltastand. Viðar fékk um 30 mínútur í dag. Hallgrímur segir hann hafa fundið til í hnénu en hafi nú jafnað sig á því.

„Ef hann vinnur vel í sínum málum er hægt að skoða að láta hann spila meira ef hann stendur sig vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert