Eitthvað annað en bara skólahreysti

Jóhann Þór Ólafsson eftir leik.
Jóhann Þór Ólafsson eftir leik. mbl.is/Óttar Geirsson

Jóhann Þór Ólafsson var að vonum sáttur í samtali við mbl.is eftir sigur sinna manna í Grindavík gegn Val, 80:78, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Smáranum í gær. 

Grindavík jafnaði þar með metin í 2:2 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Úrslit­in ráðast því í odda­leik á Hlíðar­enda næsta miðviku­dag. 

Jóhann Þór var hálf orðlaus eftir leik. 

„Þetta vinnst á einhverju hnoði hérna í restina. Menn búa til sína eigin heppni og ætli það hafi ekki verið niðurstaðan í lokasókninni hérna í kvöld.“

Dedrick Basile steig upp í liði Grindavíkur og skoraði til að mynda sigurkörfuna þegar að fimm sekúndur voru eftir. 

„Hann er mjög góður leikmaður. Var frábær í kvöld. Okkur gekk vel að losa hann og ég er sáttur við það.“

Ekki hægt að koma þessu í orð

Smárinn, sem er heimili Breiðabliks, hefur farið vel með Grindvíkinga síðan að þeir þurftu að færa sig þangað. Smárinn heldur iðulega skólahreysti en er ekki aðeins til vegna þess.  

„Það er frábært að spila hér. Alveg sturlað að sjá hvað Smárinn býður upp á. Þetta er eitthvað annað en bara skólahreysti. 

Þessi tvö hús í þessu úrslitaeinvígi og umgjörðin er sturluð. Þetta er svo mikilvægt fyrir íslenskan körfubolta. Það er ekki hægt að koma þessu í orð.“

Valur Orri Valsson með boltann í kvöld.
Valur Orri Valsson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Jóhann er spenntur fyrir oddaleiknum sem er á Hlíðarenda næsta miðvikudag. 

„Við getum ekki staldrað við það sem búið er. Nú er bara miðvikudagurinn. Við erum búnir að æfa síðan í byrjun ágúst og nú kemur þetta niður á þessum eina leik. 

Þetta er það sem allir vilja vera í og taka þátt í. Valsararnir hafa farið í gegnum þetta margsinnis og eru hoknir af reynslu. 

Við erum líka með okkar hesta klára og mætum á miðvikudaginn og skilum allt eftir á gólfinu,“ bætti Jóhann Þór við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert