Vitum hvað þarf til

DeAndre Kane kampakátur eftir leik.
DeAndre Kane kampakátur eftir leik. mbl.is/Óttar Geirsson

DeAndre Kane var að vonum sáttur er mbl.is talaði við hann eftir sigur Grindavíkur á Val, 80:78, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í Smáranum í kvöld. 

Grindvíkingar jöfnuðu þar með metin í 2:2 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Úrslitin ráðast því í oddaleik á Hlíðarenda næsta miðvikudag. 

Kane sagði að liðsheildin hafi skilað sigrinum.

„Við börðumst. Leikmenn stigu upp, Óli [Ólafur Ólafsson] setti tvo risastóra þrista í röð, Dedrick Basile setti mikilvæg skot, Valur [Orri Valsson] náði í mikilvæg fráköst. 

Breki [Kristófer Breki Gylfason] varðist vel, Julio [De Asisse] kom sterkur inn af bekknum og Dani [Daniel Mortensen]spilaði vel þrátt fyrir að vera svolítið tæpur. 

Ég reyni síðan bara að gera mitt. Liðsheildin skilaði þessum sigri. Við þurfum að standa okkur svona allan leikinn til að vinna.“

DeAndre Kane undirbýr sig til að taka víti í leiknum.
DeAndre Kane undirbýr sig til að taka víti í leiknum. mbl.is/Óttar Geirsson

Þurftum á honum að halda

Dedrick Basile fór á kostum í liði Grindavíkur og skoraði 32 stig. Hann skoraði einnig sigurkörfuna þegar að fimm sekúndur voru eftir.  

„Hann setti stórar körfur. Hann hefur gert það allt tímabilið. Hann er vélin okkar. Þegar hann fer af stað og er að spila vel þá spennist liðið upp og fylgir honum. 

Við þurftum á honum að halda og hann setti stóra skotið.“

Grindavík hefur tapað báðum leikjum á Hlíðarenda hingað til í einvíginu og þeim seinni nokkuð sannfærandi. Kane segir liðið vita hvað þarf til að sigra Val.  

„Við undirbúum okkur vel. Fyrsti leikurinn þar var tæpur en í þeim seinni þá rústuðu þeir okkur. 

Við vitum hvað þarf til að vinna þar. Við verðum að byrja sterkt. Vera ákveðnir og sterkir. Valsliðið er frábært lið og sérstaklega á heimavelli. 

Ég held að leikur fimm verði álíka skemmtilegur og þessi,“ bætti DeAndre Kane við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert