Kári: Flott hjá honum

Kári Jónsson eftir leik.
Kári Jónsson eftir leik. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er hrikalega svekkjandi,“ sagði Valsarinn Kári Jónsson í samtali við mbl.is eftir tap liðsins fyrir Grindavík, 80:78, í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld. 

Grindavík jafnaði þar með einvígið í 2:2 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Oddaleikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á miðvikudaginn kemur. 

„Við vorum mjög nálægt þessu. Hrós á leikmenn Grindavíkur, þeir voru góðir í kvöld. Dedrick Basile setti fullt af erfiðum skotum sem var dýrmætt,“ sagði Kári beint eftir leik. 

„Mér fannst við gera vel í þessari lokasókn. Við náðum að loka á DeAndre Kane þegar hann sækir að okkur og við vinnum boltann. 

Svo töpum við boltanum frá okkur og þá týnum við skipulaginu á vörninni og Basile í horninu, það gerist. Svona er körfuboltinn. Basile setur stórt skot sem er flott hjá honum.

Nú er leikur fimm og allt undir þar. Við erum spenntir að berjast við þá.“

Gerist varla betra

Valsliðið er nú á leið í oddaleik á Hlíðarenda í úrslitaeinvíginu þriðja árið í röð. 

„Það gerist varla betra. Þriðja árið í röð sem við fáum oddaleik á Hlíðarenda sem er hrikalega skemmtilegt. Það eru forréttindi að fá að vera hluti af því. 

Við erum spenntir, svekktir í kvöld og einbeitum okkur síðan að oddaleiknum,“ bætti Kári Jónsson við í samtali við mbl.is. 

Dedrick Basile fór mikinn í liði Grindavíkur.
Dedrick Basile fór mikinn í liði Grindavíkur. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert