„Klárlega sjónarmið sem er vert að gefa allan gaum“

Harpa Pétursdóttir, forstöðukona nýrra virkjanakosta hjá Orkuveitunni, og Hilmar Gunnlaugsson, …
Harpa Pétursdóttir, forstöðukona nýrra virkjanakosta hjá Orkuveitunni, og Hilmar Gunnlaugsson, formaður starfshóps um endurskoðun rammaáætlunar. mbl.is/Þorsteinn

Vert er að gefa hugmynd um breytingu á rammaáætlun allan gaum þar sem horft er til þess að klára fyrst friðunarmál og ákveða hvar alls ekki verði virkjað. Væri þá ákveðinn hluti landsins rauðmerktur á korti og ekki kæmi til greina að virkja þar, en stjórnsýslan gæti svo unnið með leyfisveitingar á öðrum svæðum. Þetta segir formaður starfshóps um endurskoðun rammaáætlunar.

Fyrrverandi umhverfisráðherra segir að staldra þurfi við áður en ákvarðanir séu teknar um meiriháttar breytingar og að umræðan um orkumál hafi í raun breyst mjög hratt á undanförnum árum úr því að vera um umframorku yfir í orkuskort.

Málefni rammaáætlunarinnar voru til ítarlegrar umfjöllunar á fagþingi orkugeirans sem stóð yfir á fimmtudaginn og föstudaginn í Hveragerði, meðal annars á einni málstofu, þar sem rætt var um stöðu rammaáætlunar, framtíð, virkni og lagalega óvissu.

Hörð gagnrýni á núverandi fyrirkomulag

Harpa Pétursdóttir, forstöðukona nýrra virkjanakosta hjá Orkuveitunni, flutti meðal annars erindi þar sem hún fór yfir þá vankanta sem hún sá á núverandi fyrirkomulagi. Var meðal annars bent á að aðeins einn virkjanakostur hefði farið í gegnum rammaáætlun síðan lögin voru samþykkt árið 2011. Það var Þeistareykjavirkjun, en auk þess eru málefni Búrfellslundar og Hvammsvirkjunar langt komin.

Harpa benti á að ekki væri hægt að skjóta ákvörðun verkefnastjórnar rammaáætlunar til æðra stjórnvalds og þá hefði málsmeðferðarhraði alls ekki staðist. Nefndi hún jafnframt að ýmsir gallar væru á kröfum um upplýsingagjöf þegar sótt væri um að virkja jarðhita. Þannig væri ekki hægt að segja til um áætlaða orkuvinnslu fyrr en rannsóknarholur hefðu verið boraðar og slíkt kostaði um 500 milljónir. Sagði hún fyrirsjáanleikann í núverandi kerfi engan, en að slíkt væri nauðsynlegt svo fyrirtæki væru til í að taka fjárhagslega áhættu af virkjanaframkvæmdum sem þessum.

Hún sagði nauðsynlegt að hugsa þetta ferli með Rammaáætlun á ný og að í raun væri skynsamlegt að taka skref aftur og spyrja sig af hverju þetta ferli sé eins og það er í dag og hvort það sé bara vegna þess að þannig hafi það verið eða hvort rökin séu enn sterk í dag. Setti hún í kjölfarið fram hugmyndina sem rakin er hér að ofan, en tók fram að þetta væri hugmynd í hennar nafni en ekki skoðun Orkuveitunnar.

Rauðmerkt svæði þar sem ekki má virkja

Í samtali við mbl.is eftir málstofuna sagði Harpa að erfitt væri að sjá fyrir sér í dag hvernig hugmynd sem þessi myndi að endingu koma út og hvort pólitískur stuðningur væri við hana.

„Ég hef verið að spá í hvort það gæti verið góð niðurstaða að rauðmerkja ákveðin svæði á landinu eins og OK-leiðin boðar, þó hún hafi ekki verið samþykkt, að afmarka ákveðin svæði sem eru bannsvæði og á að vernda, en láta svo stjórnsýsluna taka við eins og hún er hvort eð er uppsett og öll þau leyfi sem henni fylgja alveg fram að virkjun,“ segir Harpa.

Með þessari leið segir Harpa að rammaáætlun væri alveg tekin úr sambandi en þess í stað yrði stuðst við kort þar sem tiltekið væri hvar ekki ætti að virkja sem gert væri af þar til bærum sérfræðingum.

Með OK-leiðinni á hún við sérstaka málsmeðferð í þágu orkuskipta- og kolefnishlutleysis sem lögð var fram í skýrslu fyrri starfshóps orkumálaráðherra um vindorku, en skýrslan var kynnt í desember í fyrra. Meðal þeirra skilyrða sem virkjanakostir samkvæmt þeirri lið þurfa að uppfylla er að þeir verði liður í að Ísland nái markmiðum sínum um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Þá þarf virkjanakosturinn að vera innan landsvæðis sem almennt telst raskað af mannlegum athöfnum og að hann rýri ekki mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru- eða menningarminja og þar með með hátt verndargildi.

Rammaáætlun átti að vera til 12 ára og friðunarferli samhliða

Hilmar Gunnlaugsson er formaður starfshóps um endurskoðun rammaáætlunar og var einnig formaður fyrri starfshóps um vindorku. Hann tekur fram að starfshópurinn sé frekar nýlega stofnaður og að engar tillögur hafi enn verið ákveðnar.

„En það er tvennt sem tengist þessari hugsun og má segja að styðji við hana. Í fyrsta lagi er þetta svolítið eins og Norðmenn gerðu. Þeir voru með sérstaka verndaráætlun og fóru í gegnum hana og svo fóru þeir í gegnum sína rammaáætlun, sem var þá nokkuð öðruvísi en okkar rammaáætlun þróaðist, þó hún hafi verið tekin inn af fyrirmynd frá Noregi,“ segir Hilmar um þessa hugmynd.

Nefnir hann jafnframt að þegar lög um rammaáætlun hafi upphaflega verið sett hafi áætlunin átt að gilda í 12 ár, eða svipað og samgönguáætlun. „Rökin fyrir þeim tíma voru meðal annars að þá gæfist tóm til að fara með það sem átti að vernda í gegnum friðun á grundvelli náttúruverndarlaga. Þetta átti að vera samspil. En það má segja að báðir aðilar kvarti í dag. Bæði þeir sem eru að horfa á nýtinguna en líka þeir sem eru að horfa á friðun.“

„En ég held að þetta sé klárlega sjónarmið sem er vert að gefa allan gaum,“ segir Hilmar um hugmyndirnar um að ganga fyrst frá friðunaráætlun og vinna með virkjanakosti í framhaldinu á þeim svæðum sem ekki verði rauðmerkt.

Verða alltaf skiptar skoðanir

Spurður hvort hann sjái beina ókosti við þessa hugmynd segir Hilmar að auðvitað verði alltaf skiptar skoðanir um þær leiðir sem á að fara. Nefnir hann að þótt sett verði upp rauð svæði sem ekki eigi að virkja á verði líklega alltaf skiptar skoðanir um hversu langt sé gengið eða að of langt sé farið í verndun.

Harpa bætir við að í hennar huga gæti þetta orðið leið sem væri ekki of þung í vöfum og myndi einfalda ferlið og koma í veg fyrir tvíverknað eins og margir kvarti yfir í dag.

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, situr nú í nefnd um endurskoðun …
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, situr nú í nefnd um endurskoðun rammaáætlunar. mbl.is/María Matthíasdóttir

„Man ungt fólk í dag eftir þessu?“

Á málþinginu flutti Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi þingmaður og umhverfisráðherra, einnig erindi. Situr Björt nú í starfshópnum ásamt Hilmari og Kolbeini Óttarssyni Proppé, einnig fyrrverandi þingmanni.

Á undan henni hafði Harpa og tvö önnur flutt erindi þar sem gagnrýni gegn núverandi fyrirkomulagi rammaáætlunar var í forgrunni. Björt sagði að þrátt fyrir þessa gagnrýni þyrfti fólk í orkugeiranum einnig að átta sig á því af hverju farið hafi verið þá leið að velja rammaáætlun og í hvaða umhverfi sú hugsun hafi sprottið.

Fór hún aftur til fyrsta áratugar þessarar aldar og minnti á uppbyggingu Kárahnúkavirkjunar og þau miklu mótmæli sem urðu þá. Sagði Björt að þessar framkvæmdir hefðu í raun klofið samfélagið í tvennt.

Rifjaði hún upp að stjórnmálafólk þessa tíma, ekki síst umhverfisráðherrar, hefðu orðið fyrir barðinu á harðri umræðu. Þá hafi þetta einnig verið svo stórt mál að nokkur fjöldi stjórnmálafólks hafi stigið inn í stjórnmál vegna náttúruverndar og nefndi hún meðal annars Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, í því sambandi.

„Man ungt fólk í dag eftir þessu?“ spurði hún salinn og sagði að þrátt fyrir að vera sjálf rúmlega fertug í dag hafi hún aðeins náð í skottið á þessari umræðu allri. „Það varð allt brjálað í samfélaginu.“ Sagði hún mikilvægt fyrir ungt starfsfólk orkufyrirtækjanna til að vera meðvituð um þessa sögu þegar nú sé rætt um orkuskort og mikla þörf á virkjunum.

Kárahnjúkavirkjun.
Kárahnjúkavirkjun. mbl.is/ÞÖK

Miklar breytingar á stuttum tíma

Fór Björt því næst yfir það hversu miklar breytingar hefðu verið í orkumálum og orðræðu um þau síðasta einn og hálfan áratug. Rifjaði hún upp að eftir Kárahnúkaframkvæmdina hafi lög um rammaáætlun tekið gildi árið 2011. Á þeim tíma hafi enn verið hnakkrifist um náttúruvernd og nauðsyn þess að virkja. Árið 2012 hafi svo farið að bera á umræðu um að sæstreng til Íslands því selja ætti umframorku sem hér væri framleidd og ekki notuð til útlanda. Björt sagði þá umræðu hafa staðið yfir af fullri alvöru til ársins 2018.

Árið 2018 hafi hins vegar verið hætt að tala um umframorku, en í staðinn farið að ræða um orkuskort og sú umræða hafi nú staðið yfir í rúmlega fimm ár.

Sagði Björt mikilvægt að staldra við þegar þessi mál væru rædd og setja í samhengi við þær breytingar sem hafi verið á síðustu árum og að ekki væri hægt að hugsa þetta einfaldlega út frá orkuskorti og ekki orkuskorti. Huga þyrfti að því hvernig mannlíf og áherslur verði á Íslandi á komandi árum og áratugum, meta þyrfti loftlagsvá, kolefnishlutleysi, hagvöxt, náttúrusjónarmið, byggðarsjónarmið og hvort búast mætti við fólksfjölgun eða -fækkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert