Þá var ég í maganum á mömmu

Fyrirliðinn kampakátur með gullverðlaunin í gærkvöldi.
Fyrirliðinn kampakátur með gullverðlaunin í gærkvöldi. mbl.is/Jóhann Ingi

„Þetta var algjör geðshræring,“ sagði Alexander Örn Júlíusson fyrirliði Vals í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Evrópubikarmeistari í handbolta, fyrsta íslenskra liða. Valur vann Olympiacos eftir vítakeppni í gærkvöldi.

Savvas Savvas hefur reynst markverðinum Björgvin Páli Gústavssyni afar erfiður í síðustu leikjum og skoraði hann tíu mörk í báðum leikjum einvígisins. Hann var hins vegar sá eini sem klikkaði í vítakeppninni.

„Það sem er kaldhæðnislegt við þetta er að mér fannst það skrifað í skýin að þetta væri að fara að enda svona; að Savvas Savvas sem var búinn að vera mjög Bjögga í vasanum með landsliðinu og þessu einvígi myndi klikka,“ sagði Alexander kátur.

„Þetta var þvílíkur leikur, ótrúleg niðurstaða og endir á þessu. Þetta var mjög erfitt og við vissum að þetta yrði ekki auðvelt. Kannski náðu þeir að slá okkur aðeins út af laginu með látum og svo náðu þeir að keyra á okkur í byrjun.

Þeir náðu því strax að vinna niður þetta fjögurra marka forskot sem við höfðum. En svo spilaðist þetta að mörgu leyti á svipaðan hátt og fyrri leikurinn. Hann var í jafnvægi og við vissum að ef við héldum áfram að gera okkar myndum við ná áhlaupi í lokin og það hafðist,“ bætti hann við.

Alexander er gallharður Valsari og hefur alla tíð leikið með liðinu. „Það er ólýsanlegt. Ég er ákaflega stoltur af öllu því sem við höfum afrekað sem lið hingað til. Að ná einum Evrópumeistaratitli er magnað.“

Þá er hann sonur fyrrverandi landsliðsmannsins Júlíusar Jónasarsonar sem varð Evrópumeistari með spænska liðinu Valencia stuttu áður en Alexander fæddist.

„Pabbi varð Evrópumeistari með Valencia fyrir 30 árum. Þá var ég í maganum á mömmu upp í stúku. Nú erum við 20 Valsarar sem höfum orðið Evrópumeistarar,“ sagði Alexander.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert