Tilbúin að taka næsta stóra skrefið á ferlinum

Svava Rós Guðmundsdóttir í landsleik.
Svava Rós Guðmundsdóttir í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir er tilbúin að taka næsta skref á sínum ferli en hún verður ekki áfram í herbúðum sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad á næstu leiktíð.

Svava Rós, sem er 25 ára gömul, mun yfirgefa sænska félagið um áramótin þegar samningur hennar rennur út í Svíþjóð en hún gekk til liðs við Kristianstad frá Röa í Noregi í nóvember 2019.

Hún er uppalin hjá Val á Hlíðarenda en gekk til liðs við Breiðablik árið 2015 og varð Íslandsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili í Kópavoginum.

Hún á að baki 103 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 26 mörk en hún skoraði sex mörk og gaf nokkrar stoðsendingar til viðbótar í sextán leikjum með Kristianstad á nýafstaðinni leiktíð.

Erfið ákvörðun

„Það var mjög erfið ákvörðun að yfirgefa Kristianstad, sérstaklega þar sem liðinu gekk virkilega vel á síðustu leiktíð og leikur í Meistaradeildinni á komandi keppnistímabili,“ sagði Svava Rós í samtali við Morgunblaðið.

„Ég hef verið í viðræðum við önnur lið og mér fannst þetta fínn tímapunktur til þess að taka næsta skref á mínum ferli. Beta [Elísabet Gunnarsdóttir] er frábær þjálfari og hún hefur gert þvílíkt mikið fyrir mig ásamt Bjössa [Birni Sigurbjörnssyni] aðstoðarþjálfara og öllum hinum í þjálfara- og starfsteymi Kristianstad.

Það var því virkilega erfitt að þurfa að hringja í þau og segja þeim að ég yrði ekki áfram hjá liðinu. Að sama skapi átti ég mjög góð samtöl við bæði Betu og Bjössa. Þau skildu og virtu mína ákvörðun, þótt þau hafi kannski ekki verið neitt sérstaklega sátt í fyrstu. Mér stóð til boða að vera áfram hjá Kristianstad en mér fannst sjálfri kominn tími til þess að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Svava en hún á að baki 24 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað eitt mark.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert