Öll fjölskyldan greindist með kórónuveiruna

Ari Freyr Skúlason greindist með kórónuveiruna 5. febrúar.
Ari Freyr Skúlason greindist með kórónuveiruna 5. febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Oostende í Belgíu, greindist með kórónuveiruna 5. febrúar síðastliðinn en þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag.

Ari Freyr hefur verið fastamaður í liði Oostende á tímabilinu en liðið hefur verið í fantaformi það sem af er leiktíðinni og er í fjórða sæti A-deildarinnar með 43 stig.

Bakvörðurinn hefur byrjað fjórtán leiki á tímabilinu til þessa en hann lék síðast með Oostende í lok janúar gegn Zulte Waregem þar sem hann lagði upp mark í 2:1-tapi á útivelli.

„Ég er búinn að vera að glíma við kórónuveiruna undanfarnar vikur en er að koma til baka,“ sagði Ari í samtali við mbl.is.

„Ég útskrifaðist síðasta fimmtudag en ég tel mig hafa sloppið nokkuð vel. Ég missti bara bragð- og lyktarskyn og ég fann fyrir smáþreytu fyrstu vikuna en ekkert alvarlegt þannig. 

Við fengum þetta öll fjölskyldan og miðað við hvernig ástandið er í heiminum í dag tel ég okkur öll hafa sloppið mjög vel,“ sagði Ari.

Ari Freyr á að baki 77 A-landsleiki en hann er …
Ari Freyr á að baki 77 A-landsleiki en hann er uppalinn hjá Val á Hlíðarenda. AFP

Hefur vonandi ekki mikil áhrif

Oostende mætir Mechelen í belgísku A-deildinni um næstu helgi og vonast Ari til þess að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn 27. febrúar.

„Ég er búinn að taka eina æfingu með liðinu, svo kom leikur um síðustu helgi og frídagur eftir það, þannig að ég er bara að koma mér aftur af stað.

Ég er klár í næsta leik en þetta kom vissulega á leiðinlegum tímapunkti, ég var búinn að vera að spila vel.

Ég hef misst af fjórum síðustu leikjum, tveimur bikarleikjum og tveimur deildarleikjum, en vonandi hefur þetta ekki of mikil áhrif á mann.

Eftirköstin af veirunni eru alls konar hefur maður heyrt en maður missir ekki það mikið á tveimur vikum og núna snýst þetta bara um að fá snerpuna og boltaformið aftur til baka,“ bætti Ari við í samtali við mbl.is.

mbl.is