Þriðji landsliðsmaðurinn á leið til Þýskalands

Hjörtur Hermannsson er á leið til Þýskalands.
Hjörtur Hermannsson er á leið til Þýskalands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjörtur Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er að ganga til liðs við þýska B-deildarfélagið Hamburger samkvæmt heimildum mbl.is.

Hjörtur, sem er 26 ára gamall, hefur leikið með danska úrvalsdeildarfélaginu Brøndby frá árinu 2016 og varð hann danskur meistari með liðinu á nýliðnu tímabili.

Varnarmaðurinn er uppalinn hjá Fylki í Árbænum en hann gekk til liðs við PSV í Hollandi árið 2012.

Framtíð miðvarðarins hefur verið talsvert í umræðunni undanfarna mánuði en hann er samningslaus og því frjálst að semja við annað félag.

Hjörtur á að baki 22 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann lék alla þrjá landsleiki Íslands í síðasta landsleikjaglugga, gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi, og stóð sig afar vel.

Hamburger, sem er eitt af stærstu knattspyrnufélögum Þýskalands, hafnaði í fjórða sæti þýsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið féll úr efstu deild tímabilið 2017-18 og hefur leikið í B-deildinni síðan.

Hjörtur verður þriðji Íslendingurinn sem leikur í þýsku B-deildinni á komandi keppnistímabili en Guðlaugur Victor Pálsson gekk til liðs við Schalke á dögunum og Hólmbert Aron Friðjónsson samdi við Holsten Kiel í gær.

Hamburger Sport-Verein, eða HSV eins og félagið er oft kallað í Þýskalandi, varð Evrópumeistari árið 1983 eftir sigur á Juventus í úrslitaleik og Evrópumeistari bikarhafa árið 1977. Félagið hefur sex sinnum orðið þýskur meistari, síðast árið 1983, og þrívegis bikarmeistari.

mbl.is