Austria Wien fær yfirhalningu heima fyrir

Blikar slógu Austria Wien út í Evrópukeppninni í Kópavoginum í …
Blikar slógu Austria Wien út í Evrópukeppninni í Kópavoginum í kvöld og fær Austria Wien yfirhalningu í fjölmiðlum heima fyrir. Unnur Karen

Austurrískir fjölmiðlar gagnrýna frammistöðu Austria Wien gegn Breiðabliki í kvöld harðlega. Liðið féll úr leik í Sambandsdeild Evrópu eftir 2-1-tap í Kópavogi. Liðin gerðu 1-1-jafntefli í Vínarborg.

Blaðið Kronen Zeitung segir að frammistaða liðsins hafi verið skelfileg og það hafi orðið sér til skammar. Á vefsíðu blaðsins Die Presse sagði einnig að frammistaða liðsins hefði verið til skammar, liðið hefði skort alla snerpu, leikur þess verið hugmyndalaus og vörnin hvað eftir annað riðað til falls. Í fyrri hálfleik hefði það ekki átt skot á mark. Breiðablik hefði hins vegar náð sínum besta árangri í Evrópukeppni síðan 2013.

Í Kronen Zeitung segir að liðið hafi átt skelfilegan leik í fyrri hálfleik og verið refsað í samræmi við það. Staðan í hálfleik var tvö-núll fyrir Breiðablik. Austurríkismennirnir náðu að skora í seinni hálfleik, en tókst ekki að jafna áður en blásið var til leiksloka. Segir að tapið hafi verið verðskuldað. Í umsögn um leikinn er sérstaklega tekið fram að allir leikmenn Breiðabliks séu minna virði en einn leikmaður Austria Wien. Þennan mun hafi engan veginn mátt sjá á leik liðanna. Blaðið tínir einnig til að Austria Wien sé í sæti 127 á lista UEFA yfir lið í Evrópu, en Breiðablik í sæti 353 af 428 liðum.

Manfred Schmid, þjálfari liðsins, sagði eftir leikinn að þessi frammistaða væri ekki viðunandi. Hins vegar yrði hann að óska andstæðingnum til hamingju: „Þeir spiluðu frábæran fótbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert