Lygileg endurkoma Blika

Kristinn Steindórsson skoraði og lagði upp í kvöld.
Kristinn Steindórsson skoraði og lagði upp í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Breiðablik vann ótrúlegan sigur á danska stórliðinu Midtjylland er liðin mættust á æfingamótinu Atlantic Cup í Algarve í Portúgal. Úrslitin réðust í vítakeppni eftir að danska liðið komst í 3:0. 

Midtjylland fór mun betur af stað og Brasilíumaðurinn Marrony skoraði fyrsta markið á 11. mínútu. Victor Lind bætti við öðru markinu á 17. mínútu og Lind var aftur á ferðinni á 33. mínútu og var staðan í hálfleik 3:0.

Breiðablik neitaði hinsvegar að gefast upp því Kristinn Steindórsson minnkaði muninn á 53. mínútu og Gísli Eyjólfsson breytti stöðunni í 3:2 á 82. mínútu. Benedikt Waren jafnaði svo sex mínútum síðar og réðust úrslitin í vítakeppni.

Þar skoruðu Höskuldur Gunnlaugsson, Kristinn Steindórsson, Gísli Eyjólfsson, Viktor Karl Einarsson og Damir Muminovic allir á meðan danska liðið nýtti allar sínar spyrnur nema eina og ótrúlegur sigur Breiðabliks raunin.

Breiðablik hefur því unnið báða leiki sína á mótinu til þessa en liðið vann varalið enska úrvalsdeildarliðsins Brentford í fyrsta leik. 

Elías Rafn Ólafsson landsliðsmarkvörður, sem ólst upp hjá Breiðabliki, lék ekki með Midtjylland í leiknum, ásamt mörgum fleirum af fastamönnum liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert