Ekkert endilega best að skora snemma

Blikar fagna marki Jasons Daða Svanþórssonar í kvöld.
Blikar fagna marki Jasons Daða Svanþórssonar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks var sáttur með frammistöðu síns liðs í 4:1-sigri á Keflavík í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Ég er bara mjög sáttur. Sáttur við spilamennskuna stærstan hluta leiksins, við gefum reyndar aðeins eftir síðustu 20 mínúturnar eða svo en það var kannski viðbúið, við gerðum mikið af skiptingum og leikurinn einhvern veginn búinn. Í heildina er ég mjög sáttur með frammistöðuna og gott að úrslitin fylgdu í kjölfarið.“

Breiðablik komst yfir eftir rétt rúmlega mínútu leik þegar Ísak Snær Þorvaldsson skallaði boltann í mark Keflavíkur eftir horn.

„Það er auðvitað sterkt en það þarf að fylgja því eftir. Við sáum það hjá FH í gær að það er ekkert endilega alltaf best að skora snemma, ef þú fylgir því ekki eftir. Það sem ég er ánægðastur með er hungrið eftir fyrsta markið, að halda stjórninni á leiknum.“

Ísak Snær skoraði tvö mörk í leiknum en mikið hefur verið rætt og ritað um að Óskar sé að spila honum á vinstri kanti.

„Ísak er bara gríðarlega mikilvægur hlekkur í liðinu, sama hvar hann spilar. Hann er gæddur þeim eiginleika að hann getur leyst margar stöður og hann var frábær í dag.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert