Real Madríd Evrópumeistari í 14. sinn

Real Madríd hafði betur gegn Liverpool, 1:0, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla sem fram fór á Stade de France í París í kvöld. Þar með tryggði spænska stórveldið sér sinn 14. Evrópumeistaratitil í sögunni.

Eftir miklar tafir fór leikurinn loks af stað 37 mínútum eftir að hann átti að hefjast og fór hann mjög rólega af stað.

Eftir rétt rúman stundarfjórðung kom loks fyrsta marktilraun leiksins og var það dauðafæri. Trent Alexander-Arnold renndi boltanum fyrir markið á Mohamed Salah sem undir pressu náði lausu skoti niður í nærhornið en Thibaut Courtois var eldsnöggur niður og varði frábærlega.

Í kjölfarið átti Liverpool fjölda marktilrauna og hættulegasta þeirra átti Sadio Mané á 21. mínútu.

Hann fór þá afskaplega illa með varnarmenn Real, þrumaði boltanum í nærhornið en Courtois varði á einhvern ótrúlegan hátt niður í stöngina þaðan sem boltinn rann rétt fyrir framan marklínuna áður en Courtois handsamaði boltann.

Á 34. mínútu fékk Salah opið skallafæri eftir góða fyrirgjöf Alexander-Arnold en skallinn beint á Courtois.

Á 43. mínútu dró svo til tíðinda. Karim Benzema slapp þá einn í gegn hægra megin í vítateig Liverpool, missti boltann frá sér, Alisson sló hann til hliðar og Ibrahima Konaté fékk hann í sig þar sem boltinn fór í hnéð á Alisson, barst til Federico Valverde sem var í baráttu við Fabinho og Virgil van Dijk, þaðan sem boltinn rann til Benzema sem skilaði boltanum í netið.

Hann var tafarlaust dæmdur rangstæður en við tók mjög löng VAR-athugun þar sem ekki lá ljóst fyrir hver snerti boltann síðast áður en hann barst til Benzema. Valverde náði snertingu en Fabinho átti síðustu snertinguna.

VAR ákvað að halda sig við rangstöðudóminn en það var afar umdeilanleg ákvörðun.

Markalaust var því í leikhléi.

Liverpool hélt áfram þar sem frá var horfið í síðari hálfleik og setti Real undir pressu.

Eftir tæplega klukkutíma leik tók Real hins vegar forystuna. Valverde fékk þá mikið pláss hægra megin, þrumaði boltanum fyrir með jörðinni á fjærstöngina þar sem Vinicíus Júnior var mættur og stýrði boltanum auðveldlega í netið af stuttu færi.

Liverpool reyndi eftir fremsta megni að knýja fram jöfnunarmark en Real varðist einfaldlega betur og betur eftir því sem leið á leikinn og höfðu þeir rauðklæddu því ekki erindi sem erfiði.

Salah fékk besta færið á 82. mínútu þegar hann slapp einn í gegn eftir frábæra langa sendingu Fabinho en Courtois, sem átti einfaldlega fullkominn leik í marki Real, varði enn á ný stórkostlega og í þetta sinnið naumlega aftur fyrir.

Pressan hélt áfram en Liverpool gat einfaldlega ekki skorað. Eins marks sigur Madrídinga, sem áttu aðeins þrjú skot í leiknum, þar með niðurstaðan og Liverpool sat eftir með sárt ennið.

Þetta var áttundi sigur Real Madríd í röð í úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu. Síðast tapaði liðið slíkum árið 1981, einmitt gegn Liverpool og sömuleiðis í París.

Liverpool 0:1 Real Madrid opna loka
90. mín. Luka Modric (Real Madrid) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert