Vialli látinn

Gianluca Vialli er fallinn frá.
Gianluca Vialli er fallinn frá. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Gianluca Vialli er látinn, 58 ára að aldri.

Ítalinn hafði háð baráttu við illvígt krabbamein í brisi, af og á frá árinu 2017, og lést á spítala í Lundúnum í morgun.

Vialli lék sem framherji á farsælum ferli sínum þar sem hann varð til að mynda Ítalíumeistari með Sampdoria árið 1991 og Juventus árið 1995. Ári síðar vann hann Meistaradeild Evrópu með Juventus.

Á leikmannaferli sínum var Vialli mikill markaskorari. Skoraði hann 259 mörk í 673 leikjum með félagsliðum sínum og 16 mörk í 59 landsleikjum fyrir Ítalíu.

Hann var hluti af ítalska landsliðinu sem hlaut bronsverðlaun á HM 1990 á heimavelli.

Vialli lék með enska liðinu Chelsea frá 1996 til 1999 og stýrði liðinu frá 1998 til 2000, fyrra tímabil sitt sem spilandi knattspyrnustjóri.

Með Chelsea vann hann ensku bikarkeppnina, enska deildabikarinn og Evrópukeppni bikarhafa.

Vialli fékk Eið Smára Guðjohnsen til liðs við Chelsea frá Bolton sumarið 2000 og stýrði Heiðari Helgusyni hjá Watford tímabilið 2001/2002, sem var hans síðasta stjórastarf.

Síðast vann Vialli fyrir ítalska karlalandsliðið þar sem hann var liðsstjóri. Í desember síðastliðnum dró hann sig í hlé frá störfum með það fyrir augum að einbeita sér að baráttu sinni við krabbameinið.

Árið 1990 var Arnór Guðjohnsen í liði Anderlecht sem mætti Sampdoria í úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa. Vialli skoraði bæði mörk Sampdoria í 2:0 sigri eftir framlengdan leik. Árið 2020 rifjaði Arnór upp þessar minningar í Morgunblaðinu og á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert