Risasigur Heimis Hallgrímssonar

Heimir Hallgrímsson og félagar taka þátt í Suður-Ameríkubikaranum á næsta …
Heimir Hallgrímsson og félagar taka þátt í Suður-Ameríkubikaranum á næsta ári. AFP/Frederic J. Brown

Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í Jamaíku unnu 3:2-útisigur á Kanada í 8-liða úrslitum Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku í knattspyrnu karla í nótt. 

Kanada vann fyrri leikinn í Jamaíku 2:1 og endaði einvígið 4:4 en Jamaíka fer samanlagt áfram vegna fleiri marka á útivelli og mætir Panama í undanúrslitum í mars. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Bandaríkin og Mexíkó.

Jafnframt því að vera komið í undanúrslit Þjóðadeildarinnar er Jamaíkuliðið einnig komið í lokakeppni Ameríkubikarsins, Copa America, en liðin sem komast í undanúrslit Þjóðadeildarinnar, komast í lokakeppnina ásamt tíu þjóðum frá Suður-Ameríku. 

Mun Heimir því eiga við bestu liðin frá Suður-Ameríku næsta sumar. 

Komu til baka

Alphonso Davies kom Kanada yfir á 25. mínútu leiksins, 1:0, sem voru hálfleikstölur. 

Shamar Nicholson jafnaði metin fyrir Jamaíku á 62. mínútu og fjórum mínútum síðar var hann aftur á ferðinni, kom Jamaíku yfir, og jafnaði einvígið. 

Kanadamenn voru ekki lengi að svara en á 69. mínútu jafnaði Ismael Kone metin. Bobby Reid skoraði svo sigurmark Jamaíku á 78. mínútu leiksins úr vítaspyrnu, 3:2.

Einnig munu tvö lið af þeim fjórum sem detta út úr Þjóðadeildinni komast í lokakeppnina en munu þau leika séreinvígi á milli sín. Gerir það liðin 16 sem munu taka þátt í lokakeppninni næsta sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert