Rannsaka hvernig andlát fyrirliðans bar að

Maddy Cusack lést í septembermánuði.
Maddy Cusack lést í septembermánuði. Ljósmynd/Sheffield United

Enska knattspyrnufélagið Sheffield United hefur komið á fót rannsókn á þeim atburðum sem gætu hafa leitt til dauða Maddy Cusack, fyrirliða kvennaliðsins, sem fannst látin á heimili sínu í Horsley í Derbyskíri í september síðastliðnum.

Dánarorsök hefur enn ekki opinberlega verið gefin út. Lögreglan í Derbyskíri gaf það út í september að ekki væri talið að andlát Cusack, sem var 27 ára, hafi borið að með saknæmum hætti.

Móðir Maddy, Deborah, sagði í líkræðu sinni er Maddy var borin til grafar í síðasta mánuði að ástæðan fyrir andláti hennar tengdist fótbolta.

„Fallega dóttir mín, Madeleine. Ástæðan fyrir því að ég stend hér fyrir framan ykkur í dag er vegna fótbolta, sem er svo dapurlegt og veldur því að hjartað í mér brestur.

Frá því í febrúar á þessu ári var hinn ódrepandi, ósigrandi andi, andinn sem nefndist Maddy, andinn sem við vernduðum af svo miklum krafti brotinn niður, og hún var hrifsuð frá mér,“ sagði Deborah.

Breyttist allt í febrúar

Fjölskylda Maddy sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Þeir sem þekktu Maddy vel vita að hún glímdi við ekki við nein langvarandi andleg veikindi eða kvilla. Ekki það að það hefði verið eitthvað til að skammast sín fyrir, en það var ekkert slíkt til staðar.

Þeir sem þekktu hana ekki þurfa að vita af því. Maddy var sæl og glöð, áhyggjulaus stelpa sem hafði allt til að lifa fyrir. Síðustu jólum mætti lýsa sem hamingjuríkasta tíma ævi hennar. Það breyttist allt snögglega frá því í febrúar á þessu ári.

Það er ekkert launungarmál og ætti ekki að vera það að Sheffield United hefur að beiðni fjölskyldu Maddy samþykkt að rannsaka ítarlega þá atburði sem fjölskylda hennar telur að hafi átt stóran þátt í að hún lést á þeim unga aldri, 27 ára gömul.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert