Þurfti frá að hverfa í beinni útsendingu

Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. AFP/Paul Ellis

Rio Ferdinand, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur, þurfti frá að hverfa í skyndi á meðan umfjöllun bresku sjónvarpsstöðvarinnar TNT Sports um leik Parísar SG og Newcastle United í Meistaradeild Evrópu stóð í gærkvöldi.

Þáttastjórnandinn Laura Woods greindi frá því að Ferdinand hafi þurft að yfirgefa svæðið vegna ófyrirséðra aðstæðna en fullvissaði áhorfendur á Bretlandseyjum að það væri í lagi með hann og þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur.

Daily Mail greinir frá því að ástæðan fyrir því að Ferdinand hafi þurft að yfirgefa Parc des Princes-leikvanginn í París væri veikindi.

Ferdinand leið illa og fór því rakleitt af vellinum og upp á hótelherbergi sitt í París. Þrátt fyrir það stefnir hann að því að fljúga til Istanbúl í dag og fjalla um leik Galatasaray og Manchester United fyrir TNT Sports í Meistaradeildinni í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert