Til skammar hjá gestunum frá Ísrael

Dan Bitoin fagnar marki sínu með ísraelska fánann.
Dan Bitoin fagnar marki sínu með ísraelska fánann. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi úrslit eru fyrst og fremst svekkjandi,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Maccabi Tel Aviv í B-riðli Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag.

„Ég er mjög stoltur af liðinu og félaginu fyrir að hafa staðið sig mjög vel í krefjandi aðstæðum. Ég er því svekktur en stoltur. Við byrjuðum þetta af krafti og heilt yfir þá spiluðum við leikinn mjög vel allan tímann. Við erum svekktir að hafa ekki fengið neitt út úr honum en svona er þetta stundum.

Heilt yfir hefur verið margt mjög gott í okkar leik í riðlakeppninni, kannski að undanskyldum leiknum út í Belgíu sem var þó ekki alslæmur. Við lærðum hratt og vel af þeim leik og náðum fínni frammistöðu í heimaleiknum gegn Gent. Við vorum betri í dag og það er margt mjög jákvætt sem við getum tekið með okkur út úr leik dagsins, þó hann hafi tapast,“ sagði Halldór.

Halldór Árnason, þjálfari Blika.
Halldór Árnason, þjálfari Blika. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Tókst að loka á ytri aðstæður

Dan Biton kom Maccabi Tel Aviv yfir á 35. mínútu og fagnaði með því að hlaupa að varamannabekk liðsins þar sem hann sótti stóran ísraelskan fána og veifaði honum í átt að stúkunni.

„Okkur tókst að loka á allar ytri aðstæður ef svo má segja í undirbúningi okkar fyrir leikinn. Það að þeir skuli samt nota fótboltaleik til þess að koma sínum pólitísku skoðunum á framfæri er algjörlega til skammar.

Að dómarateymið og UEFA hafi líka leyft þessu að viðgangast er líka til skammar því þetta á ekkert skylt við fótbolta. Það var því erfitt að halda áfram að útiloka ytri aðstæður ef svo má segja eftir þennan gjörning þeirra á vellinum,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is.

Viktor Karl Einarsson á fleygiferð í leiknum í dag.
Viktor Karl Einarsson á fleygiferð í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert