Girona hafði betur í toppslagnum

Lewandowski skoraði fyrsta mark Börsunga í kvöld en það dugði …
Lewandowski skoraði fyrsta mark Börsunga í kvöld en það dugði ekki til. AFP

Sigurganga spænska 1. deildarliðsins Girona heldur áfram en liðið bar sigur úr býtum gegn Barcelona 4:2 í kvöld.

Girona er nú með tveggja stiga forskot á toppi spænsku deildarinnar en Barcelona endar helgina í fjórða sætinu, sjö stigum á eftir Girona. Girona hefur einungis tapað einum leik á tímabilinu og unnið fjóra af síðustu fimm leikjum liðsins.

Fyrsta mark leiksins kom eftir einungis 12 mínútna leik þegar úkraínski framherjinn Artem Dovbyk kom Girona yfir. Lewandowski jafnaði metin fyrir Barcelona sjö mínútum síðar en rétt fyrir hálfleikshlé tók Girona aftur forystuna eftir mark frá Miguel Gutiérrez.

Valery Fernandez kom Girona svo í 3:1 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Lokamínúturnar í uppbótartímanum voru þó fjörugar þar sem Gündugan minnkaði muninn í 3:2 og var þá einhver von á lífi hjá Börsungum en að lokum kláraði Cristhian Stuani leikinn þegar hann kom Girona í 4:2 á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Barcelona snýr sér nú að Meistaradeild Evrópu þar sem þeir mæta Royal Antwerp á miðvikudag en Girona fær átta daga pásu þangað til liðið tekur á móti Deportivo Alaves í spænsku deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert