Fílabeinsströndin er Afríkumeistari

Sebastian Haller reynir hér bakfallspyrnu í leiknum í kvöld. Hann …
Sebastian Haller reynir hér bakfallspyrnu í leiknum í kvöld. Hann reyndist hetja heimamanna. AFP/Daniel Beloumou Olomo

Fílabeinsströndin er Afríkumeistari karla í fótbolta eftir sigur á Nígeríu í úrslitaleik Afríkumótsins í kvöld, 2:1.

Mótið fór fram á Fílabeinsströndinni og vann heimaþjóðin sigur á mótinu, áhorfendum til mikillar gleði.

Það var hins vegar Nígería sem komst yfir í úrslitaleiknum í dag en varnarmaðurinn William Troost-Ekong skoraði með skalla á 38. mínútu.

Heimamenn gáfust ekki upp og náðu að jafna metin á 62. mínútu þegar Franck Kessie skoraði með skalla. Það var síðan framherji Dortmund, Sebastian Haller, sem innsiglaði sigur Fílabeinsstrendinga á 81. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi.

Nígeríumenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og fögnuðu heimamenn langþráðum sigri en þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2015 sem Fílabeinsströndin fagnar sigri í Afríkumótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert