Ungstirnið skoraði tvö í jafntefli

Lamine Yamal fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Lamine Yamal fagnar fyrra marki sínu í kvöld. AFP/Josep Lago

Barcelona tókst ekki að vinna Granada á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta en leikurinn endaði með sex marka jafntefli, 3:3.

Það var ungstirnið Lamine Yamal sem kom Barcelona yfir á 14. mínútu. Granada svaraði því hins vegar með tveimur mörkum, því fyrra frá Ricard Sanchez á 43. mínútu og það var svo lánsmaðurinn frá Manchester United, Facundo Pellistri sem kom gestunum óvænt yfir á 60. mínútu.

Adam var ekki lengi í paradís því Robert Lewandowski jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar en þremur mínútum eftir það, á 66. mínútu, skoraði Ignasi Miquel og kom Granada aftur yfir.

Hinn 16 ára Lamine Yamal var ekki á því að leyfa gestunum að yfirgefa Barcelona með öll stigin þrjú og náði hann að jafna leikinn á 81. mínútu og þar við sat.

Eftir leikinn er Barcelona í 3. sæti með 51 stig, tíu stigum á eftir toppliði Real Madrid. Granada er hins vegar í næst neðsta sæti með 13 stig, sjö stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert