Sigurmark á síðustu stundu í Porto

Wenderson Galeno fagnar sigurmarki sínu fyrir Porto í kvöld.
Wenderson Galeno fagnar sigurmarki sínu fyrir Porto í kvöld. AFP/Miguel Riopa

Porto sigraði Arsenal 1:0 í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn fór fram á Estádio do Dragao í Porto.

Sigurmarkið skoraði Galeno á 94. mínútu leiksins með góðu skoti fyrir utan teiginn þegar allt stefndi í markalaust jafntefli.

Það er alveg á hreinu að fyrri hálfleikurinn fer ekki í sögubækurnar en Arsenal var mun meira með boltann en voru ekki að skapa sér mikið af marktækifærum. Það var helst eftir horn sem leikmenn Arsenal voru hættulegir en gestirnir fengu fimm slíkar í fyrri hálfleik. Tvívegis fékk William Saliba tækifæri til að skora með skalla eftir hornspyrnu Bukayo Saka en í bæði skiptin fór boltinn framhjá.

Heimamenn í Porto fengu þó gott tækifæri til að komast yfir á 22. mínútu leiksins en þá átti Galeno skot í stöng eftir góða sendingu frá Francisco Cnceicao og fékk boltann aftur en setti þá boltann framhjá. Þetta var eina alvöru færi Porto í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en á 56. mínútu leiksins fékk Arsenal hornspyrnu og í kjölfarið fengu gestirnir besta færi sitt í leiknum. Declan Rice tók spyrnuna og fann Leandro Trossard sem var aleinn á fjarstönginni en skot Trossard fór hátt yfir.

Leikmenn Porto fengu ekki mörg tækifæri í seinni hálfleik en á 67. mínútu átti Pepe fínan sprettt upp vinsti kantinn og náði að koma boltanum fyrir en skot Evanilson fór í Declan Rice og útaf en færið var ansi þröngt.

Declan Rice í baráttu við Evanilson Barbosa í Porto í …
Declan Rice í baráttu við Evanilson Barbosa í Porto í kvöld. AFP/Patricia de Melo

Arsenal fékk tækifæri til að skora í upphafi uppbótartímans en þá tók Declan Rice aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Porto og hitti á Gabriel en skalli hans fór framhjá.

Það voru aftur á móti heimamenn sem náðu að skora á 94. mínútu þegar allt stefndi í markalaust jafntefli. Gabriel Martinelli reyndi þá sendingu þvert yfir völlinn á Bukayo Saka en boltinn var langt frá Saka og heimamenn náðu boltanum. Otavio átti sendingu á Galeno sem tók skot fyrir utan teiginn og setti boltann í netið, framhjá David Raya í marki Arsenal.

Lokaniðurstaðan var því 1:0 sigur fyrir Porto gegn Arsenal  í kvöld en seinni leikur liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fer fram á Emirates Stadium 12. mars næstkomandi.

Porto 1:0 Arsenal opna loka
90. mín. Wendell (Porto) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert