Enn óvíst um þátttöku þriggja leikmanna Liverpool

Mohamed Salah er tæpur fyrir úrslitaleikinn.
Mohamed Salah er tæpur fyrir úrslitaleikinn. AFP/Adrian Dennis

Ekki er enn ljóst hvort þeir Mohamed Salah, Darwin Núnez og Dominik Szoboszlai, leikmenn Liverpool, geti tekið þátt í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu gegn Chelsea á sunnudag.

Allir eru þeir að glíma við vöðvameiðsli og eru tæpir fyrir úrslitaleikinn. Szoboszlai hefur verið frá um skeið en nálgast endurkomu. Salah og Núnez meiddust um síðustu helgi og léku ekki í 4:1-sigri á Luton Town á miðvikudagskvöld.

„Við verðum að bíða og sjá með Dominik, Darwin og Mo. Við höfum tvo daga. Við æfum í dag og á morgun og sjáum hvort þeir geti verið með.

Ef ég á að vera alveg hreinskilinn væri það frábært,“ sagði Pepijn Lijnders, aðstoðarþjálfari Liverpool, á fréttamannafundi í dag.

Hollendingurinn bætti því við að Alisson, Curtis Jones, Trent Alexander-Arnold og Diogo Jota yrðu allir frá fram yfir næsta landsleikjahlé hið minnsta, sem fer fram í lok næsta mánaðar. Verða þeir því allir frá í að minnsta kosti einn mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert