Úrslitaleikur Frakka og Spánverja

Aitana Bonmati og Salma Paralluelo fagna eftir að Aitana kom …
Aitana Bonmati og Salma Paralluelo fagna eftir að Aitana kom Spáni í 2:0 gegn Hollandi í kvöld. AFP/Jorge Guerrero

Það verða Frakkar og Spánverjar sem leika til úrslita um sigur í Þjóðadeild kvenna í fótbolta næsta miðvikudag eftir að hafa sigrað Þjóðverja og Hollendinga í undanúrslitunum í kvöld.

Heimsmeistarar Spánar unnu sannfærandi sigur á Hollendingum, 3:0, frammi fyrir tæplega 58 þúsund áhorfendum í Sevilla í kvöld.

Aitana Bonmati lagði upp mark fyrir Jennifer Hermoso á 41. mínútu og skoraði síðan sjálf fjórum mínútum síðar. Ona Batlle innsiglaði sigurinn, 3:0, með marki á 77. mínútu.

Meiri spenna var í Lyon þar sem tæplega 60 þúsund áhorfendur sáu Frakka sigra Þjóðverja, 2:1.

Þar gerðist reyndar nákvæmlega það sama á lokamínútum fyrri hálfleiks og í leiknum á Spáni því Kadidiatou Diani og Sakina Karchaoui skoruðu fyrir Frakka á 41. og 45. mínútu.

Þar kom hins vegar þriðja mark leiksins frá Þjóðverjum því Giulia Gwinn minnkaði muninn fyrir Þjóðverja úr vítaspyrnu á 82. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert