Skotið sem skipti sköpum

Andreas Brehme kemur í veg fyrir að Diego Maradona komist …
Andreas Brehme kemur í veg fyrir að Diego Maradona komist í boltann í úrslitaleik HM í Mexikó 1986. Argentína sigraði Þjóðverja 3-2 í leiknum en fjórum árum síðar sneru Þjóðverjar taflinu við í Róm og urðu heimsmeistarar á marki Brehmes úr vítaspyrnu. AFP

Með marki úr víti á 85. mínútu í úrslitaleik Þýskalands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á Ítalíu árið 1990 tryggði Andreas Brehme þýska liðinu heimsmeistaratitilinn. Þar sá hann við hinum slynga markverði Argentínumanna, vítabananum Sergio Goycochea. Brehme var bráðkvaddur á þriðjudag, aðeins 63 ára að aldri.

„Sama hvar ég er, á flugvellinum eða úti í búð, alltaf er ég spurður um þetta,“ sagði Brehme í viðtali við SID, systurfjölmiðil AFP í íþróttafréttum. „Ég hugsaði ekki um mikilvægi vítisins. Ég hugsaði ekki um neitt,“ sagði hann.

Uppnám varð á vellinum þegar vítið var veitt og þótti brotið ekki mikið. Brehme sagði hins vegar alltaf að nokkru áður hefðu dómararnir sleppt augljósu víti og réttlætið hefði því sigrað. Þrjár vítaskyttur höfðu verið valdar fyrir leikinn, en Brehme, sem var vinstri bakvörður hikaði ekki.

Andreas Brehme heldur á grip sem hann fékk þegar hann …
Andreas Brehme heldur á grip sem hann fékk þegar hann var vígður inn í frægðarhöll þýskrar knattspyrnu í Safni þýskrar knattspyrnu í Dortmund 2019. Brehme lést á þriðjudag. AFP/Ina Fassbender

Argentínumenn reyndu að koma honum úr jafnvægi og spörkuðu boltanum í tvígang í burtu áður en Brehme gat tekið spyrnuna. Hann skaut til hægri við markmanninn sem skutlaði sér í rétta átt en boltinn fór svo nærri stönginni - svo nærri að Brehme hélt eitt augnablik að hann færi fram hjá - að hann náði ekki til hans.

Goycochea fór eftir að hann lagði skóna á hilluna að vinna hjá argentínska sjónvarpinu og löngu síðar lágu leiðir þeirra saman að nýju á leik þar sem Wolfsburg tók á móti Bayern München. Ákveðið var að í hálfleik myndu þeir endurtaka vítaspyrnuna.

Brehme lýsti atvikinu í viðtali við Der Spiegel árið 2020: „Við fórum saman í búningsklefann að skipta um föt. Hann spurði: „Hvernig gerum við þetta?“ Ég svaraði: „Nákvæmlega eins og 1990.“ Ég vildi ekki líta illa út og skaut boltanum í hitt hornið. Þetta var gott mál, við söfnuðum miklum peningum fyrir góðan málstað og hann erfði það ekki við mig.“

Nánar er fjallað um feril Brehmes og leikinn í Róm 1990 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert