Höfuðkúpubraut mann og dæmdur til fangelsisvistar

Ilias Chair í leik með QPR.
Ilias Chair í leik með QPR. AFP/Ben Stansall

Ilias Chair, leikmaður enska B-deildar liðsins Queens Park Rangers og marokkóska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Belgíu fyrir að hafa kastað steini í höfuðið á manni og höfuðkúpubrotið hann.

Chair, sem er fæddur í Belgíu, var fundinn sekur um að hafa kastað steini í höfuð vörubílstjóra er hann var ásamt bróður sínum í kajakleiðangri í Belgíu og Frakklandi árið 2020.

Slagsmál brutust út milli ferðamanna og vörubílstjórans og í vitnaleiðslum fyrir dómstólum í Antwerp var borið á kennsl á Chair sem sökudólginn þegar kom að steinakastinu, sem olli því að vörubílstjórinn rotaðist og kveðst enn þjakaður vegna árásarinnar.

Þarf Chair að greiða fórnarlambinu 15.864 evrur í miskabætur, tæplega 2,4 milljónir íslenskra króna.

Bróðir Chair, Jaber, var einnig dæmdur í fangelsi fyrir sinn þátt í líkamsárásinni ásamt einum manni til viðbótar. Fengu þeir sex mánaða og eins árs fangelsisdóm.

Í dómi Ilias er eitt ár skilorðsbundið og hyggst hann áfrýja dómnum. Á meðan málið er enn til meðferðar hjá belgískum dómstólum hefur QPR tilkynnt að hann komi áfram til greina í liðsvali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert