Refsing Arnórs var þyngd

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. mbl.is/Árni Sæberg

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason fær ekki að spila úrslitaleik Norrköping  gegn Sirius um sæti í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu þar sem leikbann sem hann fékk hefur verið framlengt úr einum leik í tvo.

Arnór fékk rauða spjaldið í uppbótartíma gegn Brage, í fyrsta leiknum af þremur í riðlakeppni 32-liða úrslita sænska bikarsins fyrr í þessum mánuði.

Hann var í banni í leik númer tvö, gegn Utsikten, um helgina, en sænska knattspyrnusambandið hefur nú tilkynnt að Arnór hafi fengið tveggja leikja bann.

Arnór var sjálfur mjög óhress með brottreksturinn á sínum tíma. „Ég vil ekki segja mikið en þetta er hreinn brandari,“ sagði hann við Norrköpings Tidende um rauða spjaldið. Spjaldið fékk hann fyrir að ýta við mótherja eftir að þeir duttu saman á miðjum vellinum.

Norrköping og Sirius eru ósigruð í riðlinum og leikur þeirra því hreinn úrslitaleikur um að komast í átta liða úrslitin. Arnór má leika með liðinu á ný ef það kemst þangað, en annars er næsti mótsleikur hans í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar eftir rúman mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert