Lést aðeins 19 ára

Archange Defringan Mondou í treyju HamKam.
Archange Defringan Mondou í treyju HamKam. Ljósmynd/HamKam

Knattspyrnumaðurinn Archange Defringan Mondouo, ávallt kallaður Akillas, er látinn aðeins 19 ára að aldri.

Fílabeinsstrendingurinn Akillas var leikmaður norska úrvalsdeildarfélagsins HamKam, sem Íslendingarnir Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Ari Jónsson leika með.

Félagið tilkynnti um fráfall Akillas á heimasíðu sinni í morgun þar sem fram kom að Akillas hafi fundist látinn á heimili sínu.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans og ættingjum,“ sagði meðal annars í tilkynningu HamKam.

Dánarorsök er ókunn að svo stöddu og mun félagið ekki tjá sig frekar um málið fyrr en nánari upplýsingar berast.

Miðjumaðurinn Akillas gekk til liðs við HamKam í apríl á síðasta ári og lék nokkra leiki með varaliði félagsins í fjórðu efstu deild á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert