Elti þjóf uppi og endurheimti lúxusúr

Jerome Roussillon í leik með Sochaux á sínum tíma.
Jerome Roussillon í leik með Sochaux á sínum tíma. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Jerome Roussillon, leikmaður Union Berlínar í þýsku 1. deildinni, kom liðsfélaga sínum Kevin Volland til bjargar þegar lúxusúri þess síðarnefnda var hnuplað.

Leikmenn Union höfðu verið að skemmta sér í miðbæ Berlínar eftir mikilvægan 1:0-sigur á Hoffenheim í deildinni laugardaginn 17. febrúar.

Þýska blaðið Bild greinir frá því að aðfaranótt sunnudagsins 18. febrúar voru nokkrir leikmenn Union á leið heim eftir að hafa skemmt sér.

Volland hugðist taka lest á Rosenthaler Platz þegar 16 ára piltur vatt sér að honum og stal úri hans, sem metið er á um 187.000 evrur, 28 milljónir íslenskra króna.

Hélt piltinum þar til lögreglan kom

Roussillon var í grenndinni, við það að taka leigubíl til síns heima, þegar hann sá hvað hafði gerst. Volland og Roussillon eltu piltinn en Volland féll við og meiddi sig lítillega.

Roussillon, sem þekktur er fyrir hraða sinn, elti piltinn hins vegar uppi, náði lúxusúrinu af honum og hélt piltinum þar til lögreglan í Berlín kom á vettvang og handtók hann.

Í hasarnum féll úrið í jörðina og skemmdist töluvert. Var pilturinn handtekinn, grunaður um þjófnað og eignarspjöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert