Handtekinn í Dúbaí og gæti verið framseldur

Quincy Promes í leik með Spartak Moskvu.
Quincy Promes í leik með Spartak Moskvu. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Quincy Promes, sem var á dögunum dæmdur fyrir stórfellt eiturlyfjasmygl í heimalandinu, hefur verið handtekinn í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hollenski miðillinn Telegraaf greinir frá því að Promes hafi verið staddur í æfingaferð með félagsliði sínu Spartak Moskvu þegar hann var stöðvaður við vegabréfaeftirlit á flugvellinum í Dúbaí er leikmenn og starfslið voru á leiðinni aftur til Moskvu.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Promes var handtekinn í Dúbaí en er hann sem stendur í gæsluvarðhaldi.

Fyrir tveimur vikum var Promes dæmdur í sex ára fangelsi í Hollandi fyrir aðild sína að smygli á meira en einu tonni af kókaíni í gegnum höfnina í Antwerp í Belgíu. Á síðasta ári var hann dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að stinga fjölskyldumeðlim.

Rússland er ekki með framsalssamning við Holland og getur Promes því sloppið við fangelsisvist í heimalandinu haldi hann sig þar í landi.

Sameinuðu furstadæmin, þar á meðal Dúbaí, eru hins vegar með framsalssamning við Holland. Hann er hins vegar ýmsum skilyrðum háður og því ekki fyllilega víst hvort Promes verði framseldur til Hollands svo hann geti hafið afplánun þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert