Suárez og Messi léku Dag og félaga grátt

Luis Suárez skýtur að marki Orlando City í leiknum í …
Luis Suárez skýtur að marki Orlando City í leiknum í kvöld og Dagur Dan Þórhallsson fylgist með. AFP/Chris Arjoon

Luis Suárez var allt í öllu hjá Inter Miami í kvöld þegar Inter Miami lék Dag Dan Þórhallsson og félaga í Orlando City grátt í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu.

Suárez kom Inter í 2:0 með tveimur mörkum á fyrstu 11 mínútunum og lagði upp þriðja mark liðsins á 29. mínútu. Þá var mark dæmt af honum í fyrri hálfleiknum vegna rangstöðu.

Lionel Messi tók síðan við og skoraði tvö mörk í síðari hálfleik og Suárez lagði það seinna upp fyrir hann.

Dagur lék allan tímann í stöðu bakvarðar með Orlando. Messi spilaði allan leikinn en Suárez var skipt af velli á 67. mínútu, rétt eftir fimmta markið.

Inter Miami hefur byrjað vel og er efst í Austurdeildinni með 7 stig úr þremur leikjum og markatöluna 8:1. Orlando er með eitt stig úr tveimur leikjum og hefur ekki skorað mark ennþá á tímabilinu.

Luis Suárez og Lionel Messi fagna einu marka Inter í …
Luis Suárez og Lionel Messi fagna einu marka Inter í kvöld. AFP/Megan Briggs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert