Börn Kanes flutt á sjúkrahús

Harry Kane í baráttu við Martin Ödegaard á þriðjudagskvöld.
Harry Kane í baráttu við Martin Ödegaard á þriðjudagskvöld. AFP/Adrian Dennis

Þrjú af fjórum börnum enska knattspyrnumannsins Harry Kane voru flutt á sjúkrahús eftir að hafa lent í bílslysi í Þýskalandi á mánudag.

Þrjár bifreiðar skullu saman síðdegis á mánudag í grennd við München, þar sem Kane leikur með Bayern München. Hann var hins vegar staddur á Englandi fyrir leik liðsins gegn Arsenal á þriðjudagskvöld.

Börn Kanes, á aldrinum þriggja til sjö ára, sakaði ekki. Samkvæmt yfirlýsingu sem var gefin út fyrir hönd Kanes voru þau flutt á sjúkrahús sem varúðarráðstöfun.

Enginn farþeganna í bifreiðunum þremur meiddist alvarlega. Slökkviliðsstjóri sem kom á vettvang sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að öll væru þau mjög heppin að ekkert þeirra hafi meiðst alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert