Akureyringurinn með þrennu og Ajax bíður

María Ólafsdóttir Gros fagnar marki í leik með Fortuna Sittard.
María Ólafsdóttir Gros fagnar marki í leik með Fortuna Sittard. Ljósmynd/Fortuna Sittard

María Catharina Ólafsdóttir Gros fór á kostum þegar Íslendingalið Fortuna Sittard tryggði sér sæti í úrslitum hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu með 5:0-sigri á Excelsior í undanúrslitum í kvöld.

Sittard mætir stórliði Ajax í bikarúrslitum þann 20. maí næstkomandi.

Belgíski markahrókurinn Tessa Wullaert kom Sittard í forystu eftir aðeins sex mínútna leik og tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega klukkutíma leik.

Þrenna á 17 mínútum

Þá var komið að Akureyringnum Maríu Catharinu. Hún skoraði sitt fyrsta mark í leiknum tæplega stundarfjórðungi fyrir leikslok og komst aftur á blað tíu mínútum síðar.

Á þriðju mínútu uppbótartíma fullkomnaði María Catharina þrennuna og gífurlega öruggur fimm marka sigur niðurstaðan.

Hún lék allan leikinn fyrir Sittard líkt og Hildur Antonsdóttir. Lára Kristín Pedersen kom þá inn á sem varamaður á 90. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert