Þurfa að greiða Ronaldo fúlgur fjár

Cristiano Ronaldo lék með Juventus frá 2018 til 2021.
Cristiano Ronaldo lék með Juventus frá 2018 til 2021. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo á inni háar fjárhæðir í vangoldin laun hjá ítalska félaginu Juventus.

Ronaldo kærði félagið á síðasta ári þar sem hann taldi það skulda sér 17,15 milljónir punda, jafnvirði þriggja milljarða íslenskra króna, í frestaðar launagreiðslur.

Samkvæmt ítalska miðlinum La Gazzetta dello Sport vann portúgalska stjarnan málið fyrir ítölskum dómstólum.

Lögðu ekki pening til hliðar

Málið lýtur að því að í mars árið 2020 og apríl 2021 samþykktu leikmenn Juventus að fresta launagreiðslum til fjögurra mánaða í senn þar sem Juventus átti í fjárhagserfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins.

Samkvæmt La Gazzetta dello Sport lagði félagið aldrei pening til hliðar til þess að greiða leikmönnum launin sem þeir samþykktu að yrði frestað.

Svo gæti farið að fleiri leikmenn fylgi Ronaldo að málum og kæri Juventus. Nokkrir leikmenn, þar á meðal Paulo Dybala, höfðu hins vegar komist að samkomulagi við félagið um eingreiðslu.

Dybala fékk greiddar 2,6 milljónir punda, að jafnvirði 459 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert