Di María klikkaði í vítakeppninni, Marseille í undanúrslit

Angel Di Maria grettir sig eftir vítaklúðrið í kvöld
Angel Di Maria grettir sig eftir vítaklúðrið í kvöld AFP/Sylvain THOMAS

Marseille tryggði sér farseðilinn í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir vítaspyrnukeppni gegn Benfica á Vélodrome vellinum í Marseille í kvöld.

Angel Di Maria skaut í stöng í fyrsta víti gestanna.

Benfica var 2:1 yfir eftir fyrri leikinn en Faris Moumbagna kom Marseille í framlengingu með marki tíu mínútum fyrir leikslok. Markalaust var í framlengingunni og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem auk Di Maria brást varnarmanninum unga Antonio Silva bogalistin.

Club Brugge sló PAOK frá Grikklandi sannfærandi út, 3:0 samanlagt, í Sambandsdeildinni og vítaspyrnukeppni þurfti til að tryggja Olympiacos síðasta farseðilinn í undanúrslit í sömu keppni.

Það verða því Atalanta, Roma, Marseille og Leverkusen sem spila til undanúrslita í Evrópudeildinni og Fiorentina, Aston Villa, Club Brugge og Olympiacos í Sambandsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka