Forsetinn handtekinn

Avram Grant er þjálfari karlalandsliðs Sambíu.
Avram Grant er þjálfari karlalandsliðs Sambíu. AFP/Sia Kambou

Andrew Kamanga, forseti Knattspyrnusambands Sambíu, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir peningaþvætti í heimalandinu.

Kamanga er gefið að sök að hafa orðið sér úti um fjármuni frá sambískum stjórnvöldum undir fölskum forsendum og verið hluti af samsæri um að svíkja út fé.

Hann er sagður hafa notað fjármunina til þess að fjármagna ferðir fyrir tvo vini sína til Fílabeinsstrandarinnar þar sem Afríkumót karla fór fram í byrjun árs.

Alls fjórir ákærðir

Þeir tveir, Madalitso Kamanga og Jairous Siame, hafa einnig verið ákærðir fyrir sinn hlut í málinu ásamt Reuben Kamanga, aðalritara sambíska knattspyrnusambandsins.

Hvorki Madalitso né Siame eru með nein formleg tengsl við sambandið og starfa ekki fyrir það.

Fjórmenningarnir eru sagðir hafa í sameiningu orðið sér úti um sem nemur rúmlega 2,4 milljóna íslenskra króna frá sambíska ríkinu til þess að dekka útgjöld og flugmiða til og frá Fílabeinsströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert