Dagur sleppur við að elta Messi

Lionel Messi fær aðhlynningu í fyrri hálfleik í leiknum í …
Lionel Messi fær aðhlynningu í fyrri hálfleik í leiknum í Montréal á laugardaginn. Hann spilaði samt allar 90 mínúturnar. AFP/Minas Panagiotakis

Lionel Messi verður ekki með Inter Miami í kvöld vegna meiðsla þegar liðið mætir Orlando City í nágrannaslag í MLS-deildinni í knattspyrnu.

Messi hefur glímt við meiðsli í hné og þurfti aðhlynningu eftir að hafa fengið á sig harða tæklingu í leik liðsins gegn CF Montréal á laugardaginn. The Athletic segir að hann sé ekki leikfær og verði ekki í hópnum í kvöld.

Dagur Dan Þórhallsson leikur með Orlando og þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að elta Messi að þessu sinni.

Inter Miami er efst í deildinni með 27 stig úr 13 leikjum og hefur gengi liðsins snúist algjörlega við eftir að Messi og Luis Suárez komu til félagsins. Það var við botn deildarinnar allt síðasta tímabil.

Dagur og félagar hafa hins vegar ekki átt góðu gengi að fagna það sem af er tímabilinu en Orlando er í 11. sæti af 15 liðum í Austurdeildinni með 12 stig úr 11 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert