Bleikt spjald í Suður Ameríku bikarnum

Suður Ameríku bikarinn, Copa America
Suður Ameríku bikarinn, Copa America AFP/CARL DE SOUZA

Ný regla verður tekin í gagnið í Suður-Ameríkubikarnum í knattspyrnu karla sem fram fer í Bandaríkjunum 20. júní til 14. júlí. Reglan heimilar liðum að gera auka skiptingu á leikmanni sem fær höfuðhögg.

Heimilt er að gera fimm skiptingar en nýja reglan sem Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, CONMEBOL, kynnti í gær leyfir liðum að skipta leikmanni með höfuðmeiðsli af velli án þess að það telji sem notuð skipting.

Sé slík skipting notuð munu liðin koma bleiku spjaldi til eftirlitsdómara til að tilkynna um eðli skiptingarinnar. Ef lið vill nýta tækifærið og skipta öðrum leikmanni inn á sama tíma mun sú skipting telja sem ein af fimm skiptingunum.

Innan sólarhrings eftir leikslok þarf læknir liðsins sem nýtir sér bleika spjaldið að skila staðlaðri skýrslu um eðli meiðslanna til yfirvalda CONMEBOL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert