Olympiacos vann Sambandsdeildina

Konstantinos Fortounis fyrirliði Olympiacos lyftir Sambandsdeildarbikarnum.
Konstantinos Fortounis fyrirliði Olympiacos lyftir Sambandsdeildarbikarnum. AFP

Olympiacos frá Grikklandi varð í kvöld Sambandsdeildarmeistari í knattspyrnu með því að sigra Fiorentina frá Ítalíu, 1:0, í úrslitaleik í Aþenu.

Allt stefndi í vítaspyrnukeppni því staðan var 0:0 fram á 116. mínútu en þegar fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum skoraði Ayoub El Kaabi sigurmark Grikkjanna sem fögnuðu gríðarlega í leikslok enda nánast á heimavelli í Aþenu, nágrannaborg Piraeus, heimaborgar Olympiacos.

Myndbandadómarar leiksins voru hálfa fimmtu mínútu að úskurða að mark El Kaabi væri löglegt og dramatíkin því mikil í Aþenu.

Þetta er í fyrsta skipti sem grískt félagslið vinnur Evrópukeppni í fótbolta.

Þetta er hins  vegar annað árið í röð sem Fiorentina tapar úrslitaleiknum í þessari keppni en liðið beið lægri hlut fyrir West Ham frá Englandi í úrslitaleiknum í fyrra. Alls hefur Fiorentina tapað fimm af sex úrslitaleikjum sínum í Evrópukeppni.

Leikmenn Olympiacos fagna sigurmarkinu í kvöld.
Leikmenn Olympiacos fagna sigurmarkinu í kvöld. AFP/Aris Messinis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert